Rúmlega 700 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Flestir skjálftar mældust við Eyjafjarðarál úti fyrir Norðurlandi, sá stærsti var 3,8 að stærð. Auk þess voru smáhrinur austan Öskju, í Ölfusi og við Húsmúla. Í Mýrdalsjökli mældust fleiri smáskjálftar inni Kötluöskjunni og nokkrir í nágrenni Goðalands og Hafursárjökuls.
Norðurland
Langflestir eða um 450 jarðskjálftar áttu upptök syðst við Eyjafjarðarál. Stærsti skjálftinn þar var 3,8 að stærð þann 3. nóvember kl. 15:24 með upptök suðaustan við þann stað þar sem meginhrinan og 5,6 skjálftinn voru. Tveir 3,4 stiga skjálftar mældust í nágrenni upptaka 5,6 stiga skjálftans, þann 29. október kl. 07:16 og þann 4. nóvember kl. 03:52. Í þyrpingunni við Gjögurtá mældust bara tveir smáskjálftar og einn við Flatey.
Skjálftahrina hófst í Öxarfirði í lok vikunnar. Tæplega 100 jarðskjálftar hafa verið staðsettir þar, sá stærsti var 3,2 að stærð þann 01. nóvember kl. 03:00.
Tveir smáskjálftar mældust þann 30. október austan við Mývatn, við Bjarnarflag.
Suðurland
Á Suðurlandi var fremur róleg skjálftavirkni í vikunni. Nokkrir smáskjálftar áttu upptök á þekktum jarðskjálftasprungum, allir minni en 1 stig. Í byrjun vikunnar var smáhrina austan við Raufarhólshelli í Ölfusi. Um 20 jarðskjálftar mældust þar, sá stærsti var 1,2 að stærð þann 31. október kl. 03:07. Önnur smáhrina var við Húmúla þann 3. nóvember. Tæplega 15 skjálftar minni en 1,5 stig mældust þar. Auk þess voru nokkrir smáskjálftar staðsettir í Hengli, í nágrenni Þrengsla og einn norðvestan við Surtsey.
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga mældust um 15 jarðskjálftar á þekktum jarðskjálfta- og jarðhitasvæðum í nágrenni Krýsuvíkur, Svartsengis og Brennisteinsfjalla. Stærsti skjálftinn var 2,6 að stærð með upptök norðan við Grindavík þann 31. október kl. 14:10.
Mýrdalsjökull
Rúmlega 30 jarðskjálftar hafa verið staðsettir í Myrdalsjökli í vikunni, sem er fremur róleg virkni. Þar af áttu um 15 upptök inni Kötluöskjunni, um 10 í Goðabungu og 6 við Hafursárjökul. Stærsti skjálftinn var 2,4 að stærð þann 2. nóvember kl. 11:47 undir norðanverðri öskjunni. Í byrjun vikunnar mældust tveir smáskjálftar í Torfajökli.
Hálendið
Smáhrina var milli Öskju og Dreka. Tæplega 30 jarðskjálftar mældust þar, sá stærsti var 2,6 stig þann 1. nóvember kl. 14:30. Auk þess voru nokkrir smáskjálftar staðsettir í nágrenni Öskju og Herðubreiðar. Í Vatnajökli mældust um 20 smáskjálftar við Kverkfjöll, Kistufell og Bárðarbungu, allir minni en 2 stig. Einn smáskjálfti mældist sunnan Langjökuls.