Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið

Jarðskjálftar í apríl 2013

[Fyrri mán.] [Næsti mán.] [Aðrir mánuðir og vikur] [Jarðvárvöktun]

Upptök jarðskjálfta á Íslandi í apríl 2013. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta stærri en 0 að stærð.
Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

Jarðskjálftar á Íslandi í apríl 2013

Tæplega 2500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir. Helsti atburður mánaðarins var snörp skjálftaröð vestan við Grímsey, sem hófst með jarðskjálfta af stærð 5,5 þann 2. apríl. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi. Nokkur þúsund eftirskjálftar mældust, og er úrvinnslu ekki lokið.

Um tugur jarðskjálfta mældist með upptök við Eldey og Geirfugladrang á Reykjaneshrygg. Stærstu voru um tvö stig. Þann 16. apríl mældust fimm smáskjálftar nokkrum kílómetrum austur af Reykjanestá. Þeir voru um og innan við einn að stærð. Tæplega 70 skjálftar mældust við Fagradalsfjall í apríl. Flestir urðu í tveimur skjálftahrinum 5. apríl suður af fjallinu og 21. apríl austur af fjallinu. Stærstu voru um tveir að stærð. Á Krýsuvíkursvæðinu mældust yfir 50 jarðskjálftar á þekktum sprungum, allir innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust við Brennisteinsfjöll og Bláfjöll, allir innan við einn að stærð.

Við Húsmúla á Hellisheiði mældust um 40 skjálftar, allir innan við einn að stærð. Flestir urðu 23. apríl eða 15. Nokkrir tugir smáskjálftar áttu upptök á suðurhluta Krosssprungu. Einnig mældust smáskjálftar á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, flestir við Raufarhólshelli. Stærsti var um tvö stig.

Á Suðurlandsundirlendinu mældust tæplega 30 skjálftar á þekktum sprungum. Allir voru um og innan við einn að stærð.

Tæplega 70 jarðskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, þar af flestir eða um 30 í nágrenni Goðabungu. Stærstu skjálftarnir þar voru um 2,0 að stærð. Nokkrir smáskjálftar áttu upptök við Hafursárjökul og Sólheimajökul. Inni í Kötluöskjunni mældust rúmlega 25 skjálftar, þeir voru allir minni en 1,7 stig. Þann 26. april kl. 22:56 mældist einn 1,0 stiga skjálfti norðnorðaustur af Heklu, á svipuðum slóðum og smáhrina sem var í mars. Hann var á um 11 kílómetra dýpi, eins og fyrri skjálftarnir.

Um 20 jarðskjálftar voru staðsettir á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti var 2,4 að stærð. Við Langjökul mældust rúmlega 30 skjálftar, þar af flestir suðsuðaustan jökulsins, þar sem 3,5 stiga skjálfti var í lok mars. Nokkrir smáskjálftar urðu undir Þórisjökli, suðvestan Langjökuls. Allir skjálftar í kringum Langjökul voru innan við 2,5 stig.

Rúmlega 80 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í mánuðinum, heldur færri en í mánuðinum á undan. Mesta virknin var í vestanverðum jöklinum en álíka stórar þyrpingar (rúmlega 20 skjálftar) mældust við Hamarinn og Lokahrygg, Bárðarbungu og Kistufell. Skjálfti 3,6 að stærð mældist um 6,5 km austnorðaustur af Hamrinum kl. 01:50 þann 5. apríl. Skjálftinn varð á um tveggja kílómetra dýpi og var jafnframt stærsti skjálftinn í jöklinum í apríl. Í kjölfarið mældist skammlíf hrina á sömu slóðum á um 2 - 6 kílómetra dýpi. Um hádegisbil sama dag mældist lítil hrina um 15 - 17 kílómetrum austsuðaustur af Bárðarbungu á um 18 - 25 kílómetra dýpi. Rólegt var við Grímsvötn.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega 60 jarðskjálftar. Rúmur tugur skjálfta mældist undir austurbarmi Öskju og álíka fjöldi norðan Herðubreiðar. Aðrir dreifðust um svæðið norðaustan Dyngjufjalla. Stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð.

Snörp skjálftahrina varð vestan við Grímsey. Hrinan hófst með jarðskjálfta af stærð 5,5, sem varð kl. 00:59 þann 2. apríl með upptök í Skjálfandadjúpi, eða um 15 kílómetra austur af Grímsey. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi og bárust tilkynningar til að mynda frá Grímsey, Húsavík, Raufarhöfn, Mývatnssveit, Akureyri, Sauðárkróki og Vopnafirði. Upptökin eru á brotabelti sem liggur frá Öxarfirði norður fyrir Grímsey, svonefnt Grímseyjarbelti. Þó nokkuð mældist af skjálftum yfir stærð 4 en nokkur þúsund skjálftar mældust í hrinunni sem var farin að minnka verulega í lok fyrstu viku apríl. Enn er þó viðvarandi eftirskjálftavirkni og má búast við að hún haldi áfram í vikur og mánuði.

Eftirlitsfólk í apríl: Benedikt Ófeigsson, Sigþrúður Ármannsdóttir, Bergþóra S. Þorbjarnardóttir og Martin Hensch