Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið

Jarðskjálftar í júní 2013

[Fyrri mán.] [Næsti mán.] [Aðrir mánuðir og vikur] [Jarðvárvöktun]

Upptök jarðskjálfta á Íslandi í júní 2013. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta stærri en 0 að stærð.
Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2013

Um 1030 jarðskjálftar voru staðsettir í mánuðinum. Mesta skjálftavirknin var úti fyrir Norðurlandi og þar mældist stærsti skjálftinn í mánuðinum að stærð 2,8 með upptök um 5 kílómetra suðaustur af Flatey á Skjálfanda.

Um 30 jarðskjálftar voru staðsettir við Eldey og Geirfugladrang á Reykjaneshryggi og voru stærstu skjálftarnir þar um 2 að stærð. Á Reykjanesskaga mældust rúmlega 60 smáskjálftar á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum, þar af voru flestir við Reykjanestá og í kringum Krýsuvík. Allir voru þeir innan við 1,6 að stærð. Fremur rólegt var á Hengilssvæðinu en tæplega 20 smáskjálftar áttu upptök við Húsmúla, í nágrenni Hrómundartinds og við Nesjavelli. Enginn skjálfti í Hengli náði stærðinni 2. Talsverð smáskjálftavirkni var við Þrengsli og í Ölfusinu og mældust tæplega 60 skjálftar þar. Sá stærsti þar var 2,2 að stærð þann 19. júní kl. 08:41 og var hann staðsettur undir austurhlíð Geitafells. Um 15 skjálftar um 0.5-1 stig áttu uptök á Krosssprungunni sem hrökk í maí 2008. Á Suðurlandsundirlendi mældust rúmlega 70 skjálftar á þekktum sprungum milli Ölfuss og Selsunds í Landsveit. Flestir voru á Hestfjallssprungunni og Leirubakkasprungunni og voru þeir allir minni en 1,5 að stærð. Undir Heklu mældust tveir smáskjálftar, einn grunnur skjálfti undir fjallstoppnum og annar á 10 km dýpi, á svipuðum slóðum og smáhrina var í mars síðastliðnum.

Undir Mýrdalsjökli mældust tæplega 140 jarðskjálftar. Þar af voru tæplega 60 skjálftar undir Kötluöskjunni, 45 undir vesturhluta jökulsins og tæplega 30 við Hafursárjökul. Mesta skjálftavirknin í Kötluöskjunni var á tímabilinu 20.-23. júní og mældist stærsti skjálftinn þá 1,8 að stærð. Annar skjálfti tæplega 1,8 að stærð varð þann 8. júní og átti hann upptök við suðausturbrún öskjunnar, við upptök Kötlujökuls. Flestir skjálftanna áttu upptök sunnarlega í öskjunni. Nokkru fyrir og um miðjan mánuðinn mældist aukin leiðni og aukið vatnsmagn í Múlakvísl sem bendir til að örlítið jökulhlaup hafi átt sér stað og að jarðhitavatn hafi komið undan Mýrdalsjökli. Stærstu skjálftarnir undir vesturhluta jökulsins voru um 1,8 að stærð. Allir smáskjálftarnir undir Hafursárjöklinum voru minni en 0,5 að stærð. Þann 28. júní mældist skjálfti að stærð 0,3 undir Tindfjallaöskjunni og nokkrum dögum áður mældust einnig tveir skjálftar þar suður af. Á Torfajökulssvæðinu mældust að meðaltali tæplega einn skjálfti á dag og var stærsti skjálftinn um 1,5 að stærð. Engir skjálftar mældust undir Langjökli og Hofsjökli. Við Sandvatn, sunnan Langjökuls mældust 3 skjálftar, allir minni en einn að stærð.

Rúmlega 135 jarðskjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli. Stærsti skjálftinn var 1,9 að stærð þann 14. júní kl. 03:15 og átti hann upptökum 3 kílómetra norðvestur af Kistufelli. Um 20 jarðskjálftar áttu upptök austsuðaustur af Bárðarbungu. Þeir voru á 15 til 20 kílómetra dýpi og var stærsti skjálftinn þar 1,2 að stærð. Helmingur þeirra varð innan þriggja mínútna þann 20. júní. Frá 10. júní mældust rúmlega 20 ísskjálftar í suðvestanverðum Vatnajökli, á vatnasviði Skaftár og Hverfisfljóts. Sjö jarðskjálftar voru staðsettir um 21 kílómetra suðaustur af Grímsfjalli, við skerið Vött í Skeiðarárjökli. Við Öskju og Herðubreið voru yfir 110 jarðskjálftar. Jarðskjálftarnir þar voru á stærðarbilinu -0,4 til 1,5. Flestir þeirra, um 45 voru austur af Öskju og um 40 voru suðsuðvestur af Herðubreið. Við Öskju var meðaldýpi skjálftanna 4 kílómetrar en við Herðubreið tæplega 9 kílómetrar.

Úti fyrir Norðurlandi í svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust 325 jarðskjálftar. Stærsti skjálftinn mældist 2,8 stig þann 28. júní og var hann með upptök tæpa 5 kílómetra suðaustur af Flatey á Skjálfanda. Mest var skjálftavirknin á í Skjálfandadjúpi en þar mældust 145 jarðskjálftar. Fyrir mynni Eyjafjarðar voru um 80 jarðskjálftar og við Flatey á Skjálfanda tæplega 60. Í Öxarfirði voru rúmlega 30 skjálftar. Við Þeistareyki og Kröflu mældust tæplega 25 jarðskjálftar á sitt hvoru svæðinu. Stærsti skjálftinn við Þeistareyki var 1,3 að stærð og við Kröflu um 1,1 að stærð. Fáeinir smáskjálftar mældust við Bjarnarflag við Mývatn.

Eftirlitsfólk í júní: Matthew, Gunnar, Martin og Benni