Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20130401 - 20130407, vika 14

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Yfir 4500 skjálftar mældust í sjálfvirka skjálftakerfi Veðurstofunnar. Einungis er búið að fara yfir 558 og af þeim mældust yfir 80% við Grímsey. Þó er búið er að fara yfir nánast alla atburði, sem ekki eru við Grímsey. Af annarri virkni en við Grímsey, er markverðast að um 50 skjálftar mældust á Reykjanesi, flestir sunnan Fagradalsfjalls, en einnig nokkrir við Kleifarvatn og í Henglinum. Það mældust um 10 skjálftar á Suðurlandi, og í Mýrdalsjökli mældust einungis sjö skjálftar. Allt voru þetta skjálftar undir 2 að stærð. Við Langjökul mældust 16 skjálftar sem er framhald af hrinu sem var þar í síðustu viku. Markverðasta virknin utan Norðurlands var við Bárðarbungu. Skjálfti 3,6 að stærð mældist um 6,5 km ANA af Hamrinum í Vatnajökli, kl. 01:50 þann 5. apríl. Skjálftinn varð á um 2 km dýpi. Í kjölfarið mældist skammlíf hrina á sömu slóðum á um 2-6 km dýpi. Rétt fyrir tólf á hádegi þann 5. apríl mældist lítil hrina, 15-17 km ASA af Bárðarbungu á um 18-25 km dýpi. Öflug hrina hefur staðið yfir við Grímsey síðan aðfaranótt þriðjudags. Talsverð virkni hefur verið við Grímsey undanfarið en þessi hrina hófst með skjálfta sem mældist 5,5 og varð kl. 00:59 þann 2. apríl með upptök í Skjálfandadjúpi eða um 15 km austur af Grímsey. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi og bárust tilkynningar til að mynda frá Grímsey, Húsavík, Raufarhöfn, Mývatnssveit, Akureyri, Sauðárkróki og Vopnafirði. Virknin í kjölfarið hefur verið mjög mikil og margir skjálftar fundist mjög vel í nágrenni við hrinuna, þá sérstaklega í Grímsey. Einnig hafa nokkrir skjálftar til viðbótar fundist víðar á Norðurlandi.

Suðurland

Lítil virkni var á Suðurlandi. Einungis 10 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni allir undir einum að stærð.

Reykjanesskagi

Reykjanesið var frekar rólegt. Þó varð hrina um 3-4 km suður af Fagradalsfjalli að morgni 5. apríl, allt skjálftar, sem voru undir einum að stærð. Við Kleifarvatn mældust um 13 skjálftar, sá stærsti 1,6 að stærð og 13 skjálftar mældust við Hengilinn.

Norðurland

Snarpur jarðskjálfti, af stærð 5,5, varð kl. 00:59 þann 2. apríl með upptök í Skjálfandadjúpi, eða um 15 km austur af Grímsey. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi og bárust tilkynningar til að mynda frá Grímsey, Húsavík, Raufarhöfn, Mývatnssveit, Akureyri, Sauðárkróki og Vopnafirði. Í kjölfarið hafa yfir 3000 skjálftar mælst á svæðinu. Upptökin eru á brotabelti sem liggur frá Öxarfirði norður fyrir Grímsey, svonefnt Grímseyjarbelti. Skjálfti að stærð 4,7 með upptök um 13,5 km ANA af Grímsey mældist kl 08:56 þann 2. apríl. Þessi skjálfti var um 7,5 km norðvestan við upptök stóra skjálftans.

Skjálftavirknin er sýnd hér á mynd, og eru upptök stærstu skjálftanna sýnd sem svartar stjörnur, aðrir yfirfarnir skjálftar í skjálftaröðinni eru sýndir með rauðleitum hringjum og skjálftar frá 1992-2012 eru sýndir sem svartir deplar. Meginskjálftinn er á norðaustlægu vinstrihandar sniðgengi, samanber rauð-hvíta boltann. Það þýðir að vinstri brún misgengisins fer til suðvesturs en sú hægri til norðausturs . Næststærsti skjálftinn sem varð um kl. 9 er um 7,5 km norðvestan við meginskjálftann og er á siggengi sem bendir til spennubreytinga í nágrenni stóra skjálftans.

Eftir kl. 21 þann 2. apríl fór virknin að færast til suðausturs og fór að bera á nýrri skjálftaþyrpingu 15-20 km suðaustur af upptökum 5,5 skjálftans (2. apríl). Kl 22:52 varð svo skjálfti 4,7 að stærð og kl. 23:05 varð skjálfti að stærð 4,6. Báðir skjálftarnir áttu upptök um 30 km ASA af Grímsey og fundust víða á Norðurlandi. Báðir þessir skjálftar voru á vinstri handar sniðgengi. Í kjölfarið hljóp virknin á milli upphaflegu þyrpingarinnar og þeirrar nýju.

Skjálfta til 3 apríl má einnig sjá með hafsbotns- og sprungukort í bakgrunni (mynd frá Sigríði Magnúsdóttur og Bryndísi Brandsdóttur, Háskóla Íslands)

Um kvöldið þann 4. apríl fór að draga úr virkni en rétt fyrir miðnætti urðu tveir skjálftar af stærð 3,4 kl 23:41 og 3,6 kl 23:45 um 15 km NA af Grímsey. Þessir skjálftar fundust vel í Grímsey mældust á svipuðum slóðum og skjálftinn af stærð 4,7 sem varð um kl. 9 þann 2. apríl. Í kjölfarið jókst virknin verulega í stuttan tíma, mest NV við upptakasvæði 5,5 skjálftans. Síðan hefur virknin, sem hleypur á milli þessara þriggja svæða, verið að minnka jafnt og þétt þar til nú (7. apríl 2013).

Hálendið

Við Langjökul varð áframhald af hrinunni síðan í síðustu viku, þó einungis 16 skjálftar, sá stærsti 2,4 að stærð.

Skjálfti 3,6 að stærð mældist um 6,5 km ANA af Hamrinum í Vatnajökli, kl. 01:50 þann 5. apríl. Skjálftinn varð á um 2 km dýpi. Í kjölfarið mældist skammlíf hrina á sömu slóðum á um 2-6 km dýpi. Rétt fyrir tólf þann 5. apríl, mældist svo lítil hrina um 15-17 km ASA af Bárðarbungu á um 18-25 km dýpi.

Mýrdalsjökull

Rólegt var í Mýrdalsjökli. Sjö skjálftar mældust í jöklinum allir undir tveimur að stærð.

Benedikt G. Ófeigsson