Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20130408 - 20130414, vika 15

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 400 jarðskjálftar mældust í vikunni með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Talsverð virkni var austan Grímseyjar í upphafi viku en dró hratt úr henni eftir því sem leið á vikuna. Rúmlega helmingur mældra skjálfta á landinu var austan Grímseyjar og þar mældist einnig stærsti skjálfti vikunnar á mánudagskvöld, 4 að stærð.

Suðurland

Nokkrir smáskjálftar mældust við Húsmúla á Hellisheiði, allir á þriðjudegi, auk nokkurra annars staðar á Hengilssvæðinu. Um 20 smáskjálftar mældust í Ölfusi, tæpur helmingur á Krosssprungunni sem hrökk 29. maí 2008. Rólegt var á Suðurlandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Um tugur smáskjálfta, flestir við Kleifarvatn, mældust á Reykjanesskaga og smáhrina varð um 5 kílómetra vestur af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg síðdegis á föstudegi.

Norðurland

Eftirskjálftavirknin austan Grímseyjar hélt áfram, einkum fyrri hluta vikunnar, en dró hratt úr henni eftir því sem leið á vikuna. Um 240 skjálftar mældust, sá stærsti undir miðnætti (kl. 23:38) á mánudagskvöld, 4 að stærð. Um kl. 11 á laugardagsmorgni hófst skjálftahrina u.þ.b. átta kílómetrum norðan við Kolbeinsey. Hrinan stóð fram eftir degi og stærsti skjálftinn varð kl. 15:50, 3,5 að stærð. Á öðrum svæðum úti fyrir Norðurlandi var tiltölulega rólegt. Nokkrir skjálftar mældust úti fyrir mynni Eyjafjarðar, í Öxarfirði og á Skjálfanda, allir innan við tvö stig.

Hálendið

Rólegt var í Vatnajökli en einungis níu skjálftar mældust, allir í vestanverðum jöklinum, þar af einn djúpur á Lokahrygg. Fjórir skjálftar mældust við Öskju en enginn við Herðubreið. Tveir smáskjálftar mældust norðvestan við Þórisvatn og tveir sunnan vatnsins.

Mýrdalsjökull

Um tugur skjálfta mældist í Mýrdalsjökli, þrír innan öskjunnar en aðrir í vesturjöklinum. Stærsti skjálftinn var í austanverðri öskjunni við ketil númer 11, 1,3 að stærð. Einn smáskjálfti var á Torfajökulssvæðinu. Þrír skjálftar urðu um kvöldmatarleytið á miðvikudegi í vestanverðum Þórisjökli, sá stærsti rúm tvö stig. Þrír skjálftar, allir um og innan við eitt stig, mældust austan við Jarlhettur og er það framhald skjálftahrinu sem verið hefur þar undanfarnar tvær vikur. 

Sigþrúður Ármannsdóttir og Þórunn Skaftadóttir

16. apríl 2013