Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20130415 - 20130421, vika 16

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni mældust 280 jarðskjálftar. Þó mikið hafi dregið úr jarðskjálftum á Grímseyjarbeltinu, áttu flestir skjálftarnir upptök þar eða 130. Stærsti skjálfti vikunnar var 2,9 stig við Grímsey. Lítil skjálftahrina varð við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga 21. apríl með yfir 40 skjálfta, stærsti 2,1 stig.

Reykjanesskagi

Hrina smáskjálfta varð við Fagradalsfjall sunnudagskvöld 21. apríl. Yfir 40 skjálftar mældust, stærsti 2,1 stig. Nokkrum kílómetrum austan Reykjanestáar mældust fimm smáskjálftar, 0,6 - 1,0 stig. Á Krýsuvíkursvæðinu mældust innan við 10 skjálftar, allir innan við eitt stig.
Aðeins tveir skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, langt suður á hrygg, 2,8 stig, og einn við Geirfuglasker, 1,5 stig.

Suðurland

Rólegt var á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Um 20 smáskjálftar mældust alls, við Húsmúla á Hellisheiði, á Krosssprungu, við Raufarhólshelli, Ingólfsfjall og Hengilinn.
Á Suðurlandsundirlendi mældist innan við tugur skjálfta, og allir um og innan við einn að stærð. Flestir urðu við Leirubakka í Landssveit og við Selsund.

Norðurland

Mikið hefur dregið úr eftirskjálftavirkni á Grímseyjarbeltinu, en þar varð snarpur jarðskjálfti í byrjun apríl, 5,5 að stærð, og þúsundir eftirskjálfta. Í vikunni mældust þar um 130 skjálftar, stærsti 2,9 stig. Um 20 skjálftar mældust í Eyjafjarðarál og á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, allir innan við tvö stig. Nokkrir skjálftar mældust í Öxarfirði, stærsti 1,5 stig.

Hálendið

Aðeins 12 skjálftar mældust undir Vatnajökli, allir innan við tvö stig. Upptök þeirra voru við Kistufell, undir Dyngjujökli, við Kverkfjöll, á Lokahrygg við Skaftárkatla, norðan Grímsvatna og við Þórðarhyrnu.
Norðan Vatnajökuls mældust innan við tíu smáskjálftar. Einn mældist við Herðubreið og fimm við Öskju. Tveir skjálftar áttu upptök við Lokatind við ytri Dyngjufjöll. Allir voru innan við einn að stærð.
Tveir skjálftar, 0,9 og 1,7 stig, mældust við Jarlhettur sunnan Langjökuls, þar sem var skjálftahrina um mánaðamótin mars-apríl.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældist um tugur skjálfta, aðeins þrír innan Kötluöskju. Stærsti varð við Goðabungu, rúmlega tvö stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust þrír skjálftar, um einn að stærð.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
23. apríl 2013