![]() | Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
---|
[Skjálftalisti] | [Fyrri vika] | [Næsta vika] | [Aðrar vikur] | [Jarðeðlissvið] |
Sérkort af
[Suðurlandi] | [Reykjanesi] | [Hengilssvæðinu] | [Bárðarbungu] | [Lang-og Hofsjökli] | [Öskju] | [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] | [Norðurlandi] |
Tæplega 200 jarðskjálftar mældust í vikunni og telst vikan því róleg miðað við fyrri viku þegar snörp skjálftahrina varð á Reykjaneshrygg og yfir 1000 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti nærri landi þessa vikuna var í Eyjafjarðarál, 3,0, en annar stærri, sem var um fjögur stig, varð langt suður á Reykjaneshrygg á föstudaginn. Mesta virknin var í Tjörnesbrotabeltinu líkt og oft áður.
Um tugur smáskjálfta mældist á Hengilssvæðinu og í Ölfusi auk nokkurra á Suðurlandsundirlendi.
Á Reykjanesskaga mældist á þriðja tug skjálfta, flestir vestan og austan við Kleifarvatn. Tveir skjálftar mældust undir Brennisteinsfjöllum, báðir á um sjö kílómetra dýpi. Sá stærri var 1,4 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálftinn á Reykjanesskaganum í vikunni. Um tugur eftirskjálfta mældist á Reykjaneshrygg á svipuðum slóðum og skjálftahrinan var í síðustu viku. Tveir skjálftar mældust síðan lengst suður á Reykjaneshrygg, báðir yfir þremur stigum að stærð og sá stærri nær fjórum.
Ríflega 80 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni. Um helmingur þeirra var austan Grímseyjar, 20 í Eyjafjarðarál og aðrir dreifðust um svæðið. Stærsti skjálftinn var þrjú stig í Eyjafjarðarál og var það einnig stærsti skjálfti sem mældist nærri landi.
Nokkrir skjálftar mældust við Bárðarbungu og Kistufell í Vatnajökli og einn smáskjálfti undir vestari Skaftárkatli. Stærsti skjálftinn var 1,4 við Kistufell.
Rólegt var á svæðinu norðan Vatnajökuls en þar mældust sex skjálftar, þar af tveir við Öskju.
Undir Mýrdalsjökli mældust rúmlega 20 skjálftar þar af um helmingur í sunnanverðri Kötluöskjunni. Stærsti skjálfti innan öskjunnar var 1,3, og 1,4 í vestanverðum jöklinum.
Einn skjálfti, 0,8 að stærð, mældist undir Eyjafjallajökli og á Torfajökulssvæðinu mældust 10 skjálftar, stærsti 1,7.