Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20130527 - 20130602, vika 22

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 240 jarðskjálftar mældust í vikunni. Stærstu skjálftarnir voru um 2,5 að stærð með upptök í Tjörnesbrotabeltinu.

Reykjaneshryggur og -skagi

Á Reykjaneshrygg mældust um 20 jarðskjálftar, langflestir við Fuglasker um 30 kílómetra frá landi, þar sem mikil skjálftahrina varð fyrir nokkrum vikum. Nokkrir smáskjálftar mældust í nágrenni Grindavíkur, allir innan við einn að stærð. Á Krýsuvíkursvæðinu mældust þrír smáskjálftar, allir innan við eitt stig.

Suðurland

Um 30 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og um tugur í Ölfusi. Flestir, eða um 20, áttu upptök við Húsmúla, allir innan við tvö stig. Aðrir mældust við Þrengslin, Ölkelduháls, Raufarhólshelli og Ingólfsfjall, allir innan við 1,5 stig.
Á Suðurlandsundirlendinu mældust 15 skjálftar, allir um og innan við einn að stærð. Flestir áttu upptök á Hestvatnssprungu og við Selsund. Þeir voru allir smáir, um og innan við einn að stærð.

Norðurland

Nokkur virkni var við Flatey á Skjálfanda. Um 30 skjálftar mældust, þar af yfir 20 á tveimur svæðum um fimm og tíu kílómetrum austur af eyjunni. Stærsti skjálftinn var 2,4 stig með upptök um fjóra kílómetra vestur af Flatey. Nokkrir í viðbót mældust á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, þar af tveir nálægt Húsavík (innan við eitt stig). Nokkrir smáskjálftar mældust syðst í Eyjafjarðaráli.
Í Grímseyjarbeltinu mældust um 40 skjálftar. Stærsti var 2,5 stig með upptök þar sem flestir mældust, þ.e. um 10 kílómetra norðaustan Grímseyjar. Í Öxarfirði mældust 13 skjálftar. Einn skjálfti mældist á Kolbeinseyjarhrygg, rúmlega tveir að stærð.
Nokkrir smáskjálftar mældust við Mývatn og Reykjaheiði, allir innan við einn að stærð.

Hálendið

Hátt í 20 skjálftar mældust við Jarlhettur sunnan Langjökuls, á svipuðum slóðum og skjálftahrina varð um mánaðamót mars-apríl. Stærstu skjálftarnir voru 1,7 stig. Einn skjálfti mældist undir Langjökli og einn undir Hofsjökli, báðir 1,2 stig.
Fimmtán skjálftar mældust undir og við Vatnajökul. Stærsti var um 1,5 stig með upptök við Háabungu. Einn mældist við Hamarinn, þrír við Háabungu suðvestan Grímsvatna, einn við Gjálp norðan Grímsfjalla, sjö við Bárðarbungu og Kistufell og tveir við Kverkfjöll. Og einn smáskjálfti mældist við Jökulheima.
Yfir 20 smáskjálftar mældust á Dyngjufjallasvæðinu. Stærsti var 1,2 stig við Öskjuvatn. Flestir áttu upptök vestan Herðubreiðartagla og sunnan og austan Öskju.

Mýrdalsjökull

Yfir 20 skjálftar áttu upptök undir Mýrdalsjökli, 11 við Goðabungu og 11 innan Kötluöskju. Allir voru innan við tvö stig. Tveir smáskjálftar mældust við Hafursárjökul.
Á Torfajökulssvæðinu mældust fimm skjálftar, stærsti 1,5 stig.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir