| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20130819 - 20130825, vika 34
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Á annað hundrað skjálftar voru staðsettir í vikunni. Sá stærsti mældist rúmlega 3 og átti upptök ríflega 250 km fyrir norðan Ísland, á Kolbeinseyjarhrygg. (Athugið að þessi skjálfti er fyrir utan kortið)
Suðurland
Um 30 smáskjálftar mældust á Suðurlandi á þekktum skjálftastöðum á Suðurlandsskjálftabeltinu, í Ölfusi og á Hengilssvæðinu.
Reykjanesskagi
Örfáir smáskjálftar mældust á Reykjanesskaga. Nokkrir skjálftar bættust við jarðskjálftahrinu suðvestan Geirfugladrangs sem hófst að morgni 13. ágúst. Segja má að henni sé lokið í bili.
Norðurland
Skjálftavirkni á Norðurlandi var með minnsta móti, en á þriðja tug skjálfta mældust. Smá hrina stendur enn yfir í Axarfirði um 15 km vestur af Kópaskeri.
Hálendið
Skjálfti að stærð 2.5 mældist í Öskju (kl. 01:59) þann 23. ágúst og sást á flestum jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. Ennfremur varð skjálfti af svipaðri stærð 2.6 í Kverkfjöllum (kl. 06:18) þann 21. ágúst. Tveir skjálftar mældust í Langjökli.
Veðurstofunni barst tilkynning 21. ágúst, um óvenjulegan grágruggugan lit á Vestari Jökulsá í Skagafirði (á upptök í NV-Hofsjökli) og að væg brennisteinslykt væri af ánni. Rennslismælir Veðurstofunnar við Goðdalabrú staðfestir aukið rennsli í ánni, þó það sé ekki mikið. Við nánari skoðun vatnamælingamanna í morgun kom í ljós að leiðni við upptök árinnar við Sátujökul var yfir eðlilegum mörkum. Sterk brennisteinslykt er á svæðinu. Benda athuganir til að jarðhitavatn hafi blandast jökulvatni og að um lítið jökulhlaup sé að ræða. Lítil jökulhlaup á þessum slóðum eru þekkt. Upptök jarðhitavatnsins eru í Hofsjökli, en nánari staðsetning bíður frekari skoðunar. Engir skjálftar mældust samfara þessum atburðum.
Mýrdalsjökull
Á fjórða tug smáskjálfta mældust í Mýrdalsjökli. Flestir mældust þeir við Tungnakvíslarjökul og vestur af Goðabungu en einnig í Hafursárjökli. Tugur smáskjálfta á meira dýpi var staðsettur innan Kötluöskjunnar.
Kristín Jónsdóttir