Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20130902 - 20130908, vika 36

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 260 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Stærstu skjálftar vikunnar mældust í Brennisteinsfjöllum og austan Hamarsins, og voru þeir 2,8 að stærð. Talsverð virkni var á Vatnajökulssvæðinu. Tæplega 50 skjálftar áttu upptök undir Mýrdalsjökli.

Reykjanesskagi

Fimm jarðskjálftar mældust í Brennisteinsfjöllum sunnan Helgafells, sá stærsti var 2,8 að stærð þann 5. september kl. 16:42. Smáhrina var við Fagradalsfjall á sunnudagskvöld (8.9.), um 10 smáskjálftar voru þar, allir innan við 1,5 stig. Rólegt var við Kleifarvatn, aðeins einn skjálfti mældist í Krýsuvík. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir í nágrenni Reykjanestáar og Eldeyjar.

Suðurland

2,4 stiga skjálfti var suðvestur af Ölkelduhálsi í Hengli þann 7. september kl. 11:14. Nokkrir smáskjálftar mældust á svipuðum slóðum dagana á undan. Á Suðurlandsundirlendinu mældust tæplega 25 skjálftar á þekktum sprungum milli Þrengsla og Selsunds, en enginn náði tveimur stigum.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 50 jarðskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, þar af flestir eða um 20 við Goðabungu og um 15 við Hafursárjökul. Tæplega 10 smáskjálftar mældust inni í Kötluöskjunni, allir innan við einn að stærð. Talsverð smáskjálftavirkni var undir Torfajökli, um 30 skjálftar áttu upptök þar. Þrír grunnir skjálftar mældust undir toppgíg Eyjafjallajökuls og einn í Heklu.

Hálendið

Jarðskjálftahrina var á Lokahrygg í nágrenni Skaftárkatla þann 6. - 7. september, rúmlega 20 skjálftar voru staðsettir þar, sá stærsti var 2,8 að stærð. Tveir skjálftar mældust við Grímsvötn, fjórir undir Öræfajökli og fimm í kringum Esjufjöll. Um 10 skjálftar áttu upptök undir Skeiðarárjökli. Nokkrir ísskjálftar mældust í Breiðamerkurjökli, flestir á miðvikudag eftir kl. 14 og hefur mikil kelfing íss í Jökulsárlón fylgt í kjölfarið. Fremur rólegt var norðan Vatnajökuls, nokkrir smáskjálftar voru staðsettir austan Öskju og við Herðubreiðartögl. Einn skjálfti mældist sunnan Langjökuls.

Norðurland

Um 50 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu, þar af um helmingur í Öxarfirði. Nokkrir smáskjálftar urðu við Þeistareyki og Kröflu, tveir undir Flateyjarskaga og einn undir Tröllaskaga.

Martin Hensch