Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
---|
[Skjálftalisti] | [Fyrri vika] | [Næsta vika] | [Aðrar vikur] | [Jarðeðlissvið] |
[Suðurlandi] | [Reykjanesi] | [Hengilssvæðinu] | [Bárðarbungu] | [Lang-og Hofsjökli] | [Öskju] | [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] | [Norðurlandi] |
Vikan var tíðindalítil, um 180 skjálftar, og eru það heldur færri skjálftar
en undanfarnar vikur. Enginn skjálfti náði þremur stigum, smáhrinur urðu í
Öxarfirði og við Húsmúla á Hellisheiði.
Smáhrina varð við Húsmúla á Hellisheiði. Hún hófst laust fyrir klukkan þrjú aðfaranótt föstudagsins 13. og stóð fram eftir morgni. Tíu smáskjálftar mældust á því tímabili, en 13 í heildina í vikunni. Um tugur smáskjálfta mældist á Hengilssvæðinu og í Ölfusi og annað eins á þekktum sprungum í austurhluta Suðurlandsbrotabeltisins.
Lítið var um að vera á Reykjanesskaga og -hrygg.
Um 70 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu, allir innan við tvö stig. Tæplega 30 áttu upptök í Öxarfirði, flestir á föstudegi. Fimmtán skjálftar mældust í Grímseyjarbeltinu og rúmlega 20 á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Rólegt var við Mývatn og á svæðinu við Þeistareyki.
Einungis fjórir skjálftar mældust undir Lokahrygg í vestanverðum Vatnajökli en þar var hrina í síðustu viku. Stærsti skjálftinn, 1,6, varð á fimmtudegi og var það jafnframt stærsti skjálftinn í jöklinum í þessari viku. Fáeinir skjálftar mældust við Bárðarbungu og Þórðarhyrnu en engir við Grímsvötn. Þrír skjálftar áttu upptök undir Öræfajökli og er það þriðja vikan í röð sem skjálftar mælast þar. Tveir smáskjálftar mældust við Öskju og við Herðubreiðartögl mældust 10, stærsti tvö stig.
Tæplega 40 jarðskjálftar urðu undir Mýrdalsjökli, rúmur tugur við Goðabungu og Tungnakvíslarjökul í vestanverðum jöklinum, 15 við Hafusárjökul og nokkrir innan Kötluöskjunnar. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Einn smáskjálfti var í Eyjafjallajökli, tveir á Torfajökulssvæðinu og sami fjöldi við sunnanverðan Langjökul.