| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20131007 - 20131013, vika 41
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 520 jarðskjálftar hafa verið staðsettir í vikunni. Um helmingur þeirra átti upptök við Reykjanestá. Þar varð jarðskjálfti að stærð 4,8 þann 13. október kl. 07:34 sem fannst víða um suðvestanvert landið. Minni jarðskjálftahrinur voru við Tjörnes, austan við Flatey á Skjálfanda og fyrir mynni Eyjafjarðar. Nokkrir mjög smáir og grunnir jarðskjálftar voru undir toppgíg Eyjafjallajökuls.
Suðurland
Fáeinir smáskjálftar voru við Húsmúlann suðvestan við Hengilinn. Einnig
nokkrir smákjálftar í Flóanum, við Hestfjall og í Landsveit. Tveir skjálftar
áttu upptök í Vatnafjöllum þann 8. október. Sá stærri var 1,9 að stærð en hinn 0,6 að stærð.
Reykjanesskagi
Þann 13. október kl. 07:34 varð jarðskjálfti að stærð 4,8 (Mb stærð frá NEIC, Mb 4,9 skv EMSC)
með upptök um 1-2 km austan við Reykjanestá. Hann fanst mjög vel víða um suðvestanvert landið,
allt frá Vík í austri og norður á Strandir. Allmikil forskjálftavirkni var á undan honum fyrr
um nóttina. Verulega dró úr eftirskjálftavirkninni um kl. 19 sama dag. Um 250 jarðskjálftar hafa
verið staðsettir þennan dag en endanlegri úrvinnslu er ekki að fullu lokið.
Nokkrir smáskjálftar voru við Svartsengi og norðan Grindavíkur. Einnig voru fáeinir smáskjálftar
á Krýsuvíkursvæðinur. Tveir smáskjálftar voru sunnan við Bláfjöll.
Norðurland
Úti fyrir Norðurlandi mældust um 115 jarðskjálftar. Jarðskjálftahrinan úti fyrir mynni Eyjafjarðar
frá fyrri vikum fjaraði út í byrjun vikunnar. Viðvarandi jarðskjálftavirkni var norður af Tjörnesi
alla vikuna en þar mældust um þriðjungur skjálftanna á Tjörnesbrotabeltinu. Stærsti skjálftinn þar var 2,2
að stærð þann 7. október. Svipaður fjöldi skjálfta átti upptök um 7 kílómetra suðaustan við Flatey á Skjálfanda.
Þeir voru allir minni en 1,5 að stærð. Skjálftar voru einnig í Skjálfandadjúpi og norðan við Grímsey.
Einn skjálfti 2,3 að stærð var um 12 norðvestan við Kolbeinsey þann 12. október.
Hálendið
Mjög lítil skjálftavirkni var undir Vatnajökli. Tveir skjálftar um 1,2 að stærð voru við Hamarinn.
Aðrir skjálftar undir jöklinum voru minni en þeir.
Við Öskju og Herðubreið voru 17 jarðskjálftar. Þar af um 10 við Öskju. Stærsti
skjálftinn þar var 2,2 að stærð þann 7. október.
Sex skjálftar mældust með upptök við Gjáfjöll á Veiðivatnasvæðinu þann 10. október milli kl. 15:10 og 16:20
og var stærsti skjálftinn 1,2 að stærð.
Þrír smáskjálftar voru við Skjaldbreið.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdalsjökli voru 36 jarðskjálftar. Þar af var tæplega helmingur þeirra undir vestanverðum jöklinum.
Sá stærsti um 1,3 að stærð. Undir Kötluöskjunni voru 13 skjálftar, flestir sunnarlega í öskjunni
og allir minni en 1 að stærð. Við Hafursárjökul voru 6 skjálftar á stærðarbilinu 0,3 til 0,7.
Tveir smáskjálftar voru við Sandfellsjökul
Frá 8. - 13. október mældust 15 smáskjálftar undir toppgíg Eyjafjallajökul. Þeir voru á stærðarbilinu
-0,2 til 0,6 og nær allir á mjög grunnu dýpi.
Á Torfajökulssvæðinu mældust 19 jarðskjálftar. Nær allir þann 10. og 11. október. Upptökin voru
við Hrafntinnusker aðallega um morguninn þann 10. október. Stærsti skjálftinn þar var 1,8 að stærð.
Þann 11. október voru upptökin aðallega austarlega í Torfajökulsöskjunni, við Torfajökul.
Gunnar B. Guðmundsson