Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20131021 - 20131027, vika 43

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 250 jarðskjálftar mældust í vikunni. Þeir voru allir smáir, um og innan við tvö stig. Virkasta svæðið var norður af Tjörnesi, en þar hefur mælst mikill fjöldi skjálfta síðustu vikurnar.

Suðurland

Við Húsmúla mældust smáskjálftar alla vikuna, samtals 25. Allir voru innan við eitt stig að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust einnig við Hveradali, Raufarhólshelli og á suðurhluta Krosssprungu.
Á Suðurlandsundirlendinu mældust um 15 skjálftar, allir smáir. Að kvöldi þann 23. október mældust tveir skjálftar undir Heklu, 0,7 og 1,1 stig. Nokkrir skjálftar áttu upptök á Hestvatnssprungu og svo öðrum þekktum sprungum á svæðinu.

Reykjanesskagi

Fimm skjálftar mældust við Eldey á Reykjaneshrygg og einn við Geirfugladrang. Allir voru innan við tvö stig að stærð.
Lítil skjálftavirkni var á Reykjanesskaga. Nokkrir skjálftar innan við eitt stig mældust austur af Reykjanestá, en hrinur hafa orðið á því svæði síðustu vikur. Skjálfti 1,4 stig varð austan Grindavíkur. Undir Vífilsfelli mældust tveir skjálftar, 0,9 og 1,8 stig.

Norðurland

Í Tjörnesbeltinu norður af landinu mældust yfir 70 skjálftar. Stærstu voru um tvö stig. Flestir áttu upptök norðan Tjörness, en þar hefur verið mikil virkni síðustu tvær vikur. Önnur virk svæði voru Grímseyjarbeltið, suðaustur af Flatey á Skjálfanda og nokkrir skjálftar mældust úti fyrir mynni Eyjafjarðar.
Á Þeistareykjasvæðinu mældust nokkrir smáskjálftar í kringum 0 stig. Á Kröflusvæðinu mældust átta skjálftar, stærsti 1,1 stig.

Hálendið

Lítil skjálftavirkni var undir Vatnajökli. Innan við 20 skjálftar mældust. Um helmingur átti upptök á Lokahrygg, stærsti 1,2 stig. Aðrir voru dreifðir um svæðið. Stærsti var 1,4 stig við Kistufell. Einn skjálfti mældist norðvestur af jöklinum við Nýjadal. Hann var 1,1 stig.
Við Öskju og Herðubreið mældust hátt í 20 skjálftar. Stærstu voru um eitt stig og flestir austan Öskju.
Einn skjálfti mældist austan undir Skjaldbreið, 0,8 stig.

Mýrdalsjökull

Um 20 skjálftar mældust undir vestanverðum Mýrdalsjökli, á annan tug innan Kötluöskju og um tugur við Hafursárjökul sunnan öskjunnar. Stærstu skjálftar voru rúmlega eitt stig.
Nokkrir smáir og grunnir skjálftar mældust undir Eyjafjallajökli eins og undanfarnar vikur. Á Torfajökulssvæðinu mældust nokkrir skjálftar. Bylgjurnar voru óskýrar og staðsetning því ónákvæm.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir