Ríflega 160 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Töluvert margir skjálftar mældust á Hellisheiði við Húsmúlann í vikunni eða ríflega 60 skjálftar. Rúmlega 30 skjálftar mældust við Vífilsfell en sú hrina hófst seinni part 16. nóvember. Allir skjálftarnir mældust innan við 3 að stærð. Samkvæmt afstæðum staðsetningum lenda skjálftarnir á norður-suðlægri sprungu á um 5-7 km dýpi. Undir Hjörleifshöfða mældust 4 skjálftar á einum klukkutíma snemma á sunnudagsmorgni. Þeir lenda á yfir 20 km dýpi sem er nokkuð vel ákvarðað. Skjálftar á þessum stað eru ekki algengir en þann 7. desember 2007 mældust svipaðir skjálftar.
Einn lítill skjálfti varð í Heklu 12. nóvember.
Suðurland
Lítil virkni var á Suðurlandi í vikunni. Einn skjálfti mældist í Heklu 0,6 að stærð.
Reykjanesskagi
Skjálftavirknin á Reykjanesskaga einkenndist af mikilli virkni á Hellisheiði og smá hrinu við Vífilsfell. Virknin við Húsmúla var jöfn í upphafi vikunnar en tók svo smá kipp aðfaranótt 16. nóvember. Nokkrum klukkustundum eftir að henni lauk þagnaði svæðið við Húsmúla og skjálftavirkni fór að mælast við Vífilsfellið. Þar mældust samtals rúmlega 30 skjálftar síðan í eftirmiðdaginn 16. nóvember.
Norðurland
Lítil jarðskjálftavirkni var fyrir norðan í vikunni. Þrír jarðskjálftar af stærð 2-3 mældust um 70 km fyrir norðnorðvestan Grímsey.
Hálendið
Lítil skjálftavirkni mældist á hálendinu. Einn skjálfti mældist vestast í Langjökli. Einir 4 skjálftar mældust í Vatnajökli. 2 skjálftar mældust við Öskju.
Mýrdalsjökull
Skjálftavirkni við Mýrdalsjökul var óvenjuleg fyrir þær sakir að lítil hrina mældust undir Hjörleifshöfða. Skjálftarnir mældust 1-2.3 að stærð og voru á 19-23 km dýpi eða við neðri mörk stökku skorpunnar. Af og til sjást djúpir skjálftar á þessum stað. Síðast varð hrina þarna þann 7. desember 2007.