Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20131118 - 20131124, vika 47

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 640 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, allir voru þeir innan við 3 stig. Þar af mældust langflestir eða um 55% í tveimur hrinum við Vífilsfell á austanverðum Reykjanesskaga. Talsverð skjálftavirkni var á Vatnajökulssvæðinu, áhugaverð smávirkni var undir Tungnafjallsjökli, við Öskju og suðaustan Flateyjar. Í Mýrdlasjökli urðu tvær smáhrinur á miklu dýpi undir Kötluöskjunni og auk þess nokkrir smáskjálftar við Goðaland og Hafursárjökul.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftahrina var við Vífilsfell í byrjun vikunnar. Alls voru um 350 skjálftar staðsettir þar. Þeir stærstu mældust þann 18.11. kl. 10:17 og 13:29, og voru þeir báðir 2,9 að stærð. Virknin hætti á miðvikudaginn en byrjaði að nýju á sunnudagskvöld um sjöleytið. Smærri hrinur urðu á svipuðum slóðum vikurnar á undan. Auk þess mældust um 15 smáskjálftar við Krýsuvík og fimm á Reykjaneshrygg.

Suðurland

Tæplega 40 jarðskjálftar voru staðsettir á Hengilssvæðinu í vikunni, þar af flestir við Húsmúla og Hveradali. Stærsti skjálftinn var 2,1 af stærð með upptök norður af Skeggja í Hengli. Fremur rólegt var á Suðurlandsundirlendinu, rúmlega 10 smáskjálftar mældust á þekktum sprungum milli Ölfuss og Selsunds. Allir voru þeir minni en 1,5 stig.

Mýrdalsjökull

Miðvikudaginn 20. nóvember mældust tvær djúpar hrinur, önnur kl. 08:50-08:55 (8 skjálftar) og hin kl. 19:00-19:10 (6 skjálftar). Skjálftarnir voru milli 0,8 og 1,4 að stærð og á um 25 kílómetra dýpi, líklega tengist þessi virkni kvikuhreyfingum. Sambærileg virkni mældist meðal annars í september 2012 á svipuðum slóðum. Auk þess voru nokkrir smáskjálftar staðsettir við Hafursárjökul og Goðaland. Tveir grunnir smáskjálftar urðu undir Eyjafjallajökli og þrír undir Torfajökli, sá stærsti var 2,1 að stærð þann 22.11. kl. 10:41.

Hálendið

  • Á miðvikudagsmorgni kl. 03:30-06:10 mældist 0,5-2 Hz tíðni órói undir suðvestanverðum Vatnajökli, hugsanlega tengt jarðhitavirkni. Skömmu áður höfðu rúmlega 10 skjálftar mælst við Þórðahyrnu, sá stærsti 1,9 að stærð kl. 03:09. Engin merki sáust um hugsanlegt hlaup í kjölfarið. Ólíklegt er að rafleiðnitoppur sem mældist í Skjálfandafljóti við Aldeyjarfoss á fimmtudagskvöld kl. 20:20 hafi tengst þessum atburðum vegna þess að upptakasvæði óróans var líklega sunnan vatnaskilanna undir Vatnajökli.

  • Smávirkni mældist í kringum Grímsvatnaöskjuna og á Lokahrygg, nokkrir smáskjálftar áttu upptök í nágrenni Dyngjuhálss og Kverkfjalla, einn skjálfti var undir Esjufjöllum. Enginn skjálfti var stærri en 2,1 stig.

  • Smáhrina var nordur af Tungnafellsjökli á laugardagskvöld, stærsti skjálftinn varð um miðnætti, 2,3.

  • Um 20 smáskjálftar voru staðsettir austur af Öskju (allir minni en 1,2 stig) og um 10 í kringum Herðubreið (allir innan við 1,6 stig). Tveir skjálftar mældust undir norðaustanverðum Höfsjökli og tveir sunnan Langjökuls.

    Norðurland

    Ríflega 60 jarðskjálftar áttu upptök á Tjörnesbrotabeltinu, þar af flestir, eða um 25, í Öxarfirði. Tíu smáskjálftar mældust austur af Grímsey og nokkrir við Eyjafjarðarál. Um helgina var smáhrina suðaustan Flateyjar, tæplega 25 skjálftar urðu þar. Stærsti skjálfti vikunnar varð um 250 kílómetra norðnorðaustur af Kolbeinsey þann 24.11. kl. 14:42, 2,9 að stærð. Auk þess mældust 10 skjálftar við Þeistareyki og einn í Kröflu.

    Martin Hensch