Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið

Jarðskjálftar í janúar 2014

[Fyrri mán.] [Næsti mán.] [Aðrir mánuðir og vikur] [Jarðvárvöktun]

Upptök jarðskjálfta á Íslandi í janúar 2014. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta stærri en 0 að stærð.
Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2014

Tæplega 1100 jarðskjálftar mældust í janúar, um 300 fleiri en mánuðinn á undan. Skjálftahrina sem hófst á gamlársdag suðaustan við Fagradalsfjall, nærri Ögmundarhrauni, hélt áfram inn í nýtt ár. Skjálfti sem var 3,5 að stærð varð viku af janúar suðvestan við Svartsengi. Hann fannst í nágrenninu. Dagana 6. - 8. janúar varð smáhrina vestan Hveravalla. Þann 19. janúar var tilkynnt að hlaup væri hafið úr vestari Skaftárkatli, í norðvestanverðum Vatnajökli.

Reykjanesskagi
Kl. 12:12 þann 7. janúar varð 3,5 skjálfti suðvestan við Svartsengi. Tilkynningar um að hann hefði fundist bárust frá Svartsengi, Grindavík og Reykjanesbæ. Aðeins einn forskjálfti mældist og tveir eftirskjálftar. Hrina jarðskjálfta, sem hófst á gamlársdag, suðaustan við Fagradalsfjall, nærri Ögmundarhrauni, hélt áfram. Alls mældust þar 42 jarðskjálftar í mánuðinum. Virknin var mest 3. janúar en þann dag mældist stærsti skjálftinn sem var 1,9 að stærð. Annars staðar á skaganum mældust rúmlega 40 skjálftar, 1,5 að stærð eða minni. Í nágrenni við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg mældust sjö jarðskjálftar á stærðarbilinu frá 1,5 til 3,2, flestir 10. janúar.

Suðurland
Á Suðurlandi og Hengilssvæðinu mældust 315 jarðskjálftar. Sá stærsti, sem var 1,8 að stærð varð kl. 02:52 aðfaranótt 27. janúar. Aðrir skjálftar voru 1,5 að stærð eða minni. Um helmingur skjálftanna voru á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla, hinn helmingurinn dreifðist eftir Suðurlandsbrotabeltinu.

Norðurland
Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust um 200 jarðskjálftar. Tveir stærstu skjálftarnir voru 2,5 að stærð og átti annar upptök við Tjörnesgrunn á Grímseyjarbeltinu en hinn fyrir mynni Eyjafjarðar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Mest var skjálftavirknin á Grímseyjarbeltinu frá Grímsey og inn í Öxarfjörð og um fjórðungur skjálftanna átti upptök fyrir mynni Eyjafjarðar. Á fjórða tug smáskjálfta mældust við Kröflu og Þeistareyki og voru þeir allir undir einum að stærð. Frá Kolbeinsey og norður fyrir SPAR brotabeltið á Kolbeinseyjarhrygg mældust sex jarðskjálftar.

Mýrdalsjökull
Lítil skjálftavirkni var undir Mýrdalsjökli í janúar og var fjöldi skjálfta svipaður og var í desember 2013. Upptök skjálfta á svæðinu eru innan Kötluöskju, undir vestanverðum Mýrdalsjökli og við Hafursárjökul, sem er lítill skriðjökull suður af öskjunni. Um 90 skjálftar mældust, allir innan við 1,5. Skjálftarnir voru jafndreifðir í tíma og nokkuð fleiri voru staðsettir undir vesturjöklinum en á hinum svæðunum.
Rólegt var einnig á Torfajökulssvæðinu. Um tugur skjálfta mældist, stærstu rúmlega eitt stig. Upptök þeirra voru við Torfajökul og Kaldaklofsjökul, norðan Hrafntinnuskers og norðan við Laufafell.

Hálendi
Um 80 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í janúar, heldur færri en mánuðinn á undan. Rúmlega tugur skjálfta var staðsettur við Hamarinn og á Lokahrygg, álíka margir undir Kverkfjöllum en heldur fleiri við Kistufell og í nágrenni Þórðarhyrnu. Auk þess mældust nokkrir smáskjálftar undir Öræfajökli. Kl. 18:42 16. janúar mældist skjálfti 0,5 að stærð um sjö kílómetrum suðsuðvestan við vestari Skaftárketilinn. Aðfaranótt 19. janúar kl. 01:23 varð annar skjálfti 1,5 að stærð skammt vestan við þennan sama ketil. Síðdegis sama dag var tilkynnt að hlaup væri hafið, sem reyndist vera úr vestari katlinum. Kl. 18:58 varð skjálfti 2,5 að stærð um þremur kílómetrum norðaustan við austari Skaftárketilinn, líklega tengdur umbrotunum. Þessi skjálfti reyndist vera stærsti skjálftinn í jöklinum í janúar. Eftir að hlaupið náði hámarki komu fram nokkrar óróahviður á jarðskjálftamælum. Sú stærsta var þann 20. janúar kl. 18 og varaði í rúma hálfa klukkustund. Svona órahviður eru algengar eftir hlaup og orsakast líklega af suðu við þrýstingslækkun í katlinum. Lítil skjálftavirkni var samfara flóðinu enda reyndist það lítið.
Tæplega 200 skjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Mesta virknin var í tveimur þyrpingum, önnur var skammt suðvestan Herðubreiðar en hin undir austanverðum Herðubreiðartöglum. Um 100 skjálftar mældust samanlagt í þessum þyrpingum og stærstu skjálftarnir rúmt stig. Um 20 skjálftar voru staðsettir við austurbarm Öskju, flestir síðari hluta mánaðarins. Stærsti skjálftinn var 1,6 að stærð. Síðari hluta mánaðarins mældist á annan tug smáskjálfta norður af Upptyppingum.
Þann 6. janúar voru 20 skjálftar staðsettir vestan Hveravalla, milli eitt og tvö stig að stærð. Tíu skjálftar í viðbót voru staðsettir næstu tvo daga. Fleiri sáust á skjálftamælinum á Hveravöllum, en þeir voru of litlir til að staðsetja. Upptök skjálftanna eru grunn og tengjast þeir líklega jarðhitavirkni.
Fáir skjálftar mældust á öðrum svæðum innan vestara gosbeltisins. Þrír áttu upptök norðan Geitlandsjökuls í Langjökli og einn norðan Hagafells. Einn smáskjálfti mældist undir Skjaldbreið og tveir við Hlöðufell. Þrír skjálftar mældust 28. janúar milli Sandvatns og Jökulhetta, og einn smáskjálfti sunnan Sandvatns. Í Bláfjallahálsi austan Langjökuls mældust þrír skjálftar. Allir þessir skjálftar voru innan við 1,5 að stærð.
Við Hofsjökul mældust tveir skjálftar, annar undir vestanverðum jöklinum, rúmlega eitt stig að stærð, og hinn undir norðvesturbrún jökulsins, 2,4 stig.

Eftirlitsfólk í janúar: Einar Kjartansson, Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, Sigþrúður Ármannsdóttir, Gunnar B. Guðmundsson og Benedikt G. Ófeigsson