![]() | Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Reykjanesskagi
Um 14 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg. Stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð og átti upptök við 63,3°N.
Flestir hinna skjálftanna áttu upptök við Geirfugladrang og vestur af Reykjanestánni seinni hluta mánaðarins.
Á Reykjanesskaga voru um 90 jarðskjálftar og þar af voru tæplega 60 á Krýsuvíkursvæðinu. Skjálftarnir á
Krýsuvíkursvæðinu voru flestir 8. - 9. mars og áttu upptök undir sunnanverðu Kleifarvatni. Stærsti skjálftinn þar
var 2,7 að stærð þann 9. mars kl. 07:30 og fannst hann í Hafnarfirði og Reykjavík. Þann 26. mars mældist skjálfti
af stærð 2,4 við norðanvert Kleifarvatn.
Suðurland
Við Húsmúla við Hellisheiðarvirkjun mældust um 350 smáskjálftar.
Mest var skjálftavirknin þann 2. mars og einnig 23. mars, en þá mældist stærsti
skjálftinn á svæðinu 2,1 stig. Annars staðar á Hengilssvæðinu mældust tæplega 60 jarðskjálftar. Flestir voru í grennd
við Ölkelduháls og við Háhrygg norðaustan við Hengil. Stærsti skjálftinn við Ölkelduháls var 2,2 að stærð þann
14. mars og stærsti skjálftinn við Háhrygg var 27. mars, einnig 2,2 stig. Báðir þessir skjálftar fundust í Hveragerði.
Í Ölfusinu mældust 30 smáskjálftar. Sá stærsti var 1,4 stig en allir aðrir minni en einn að stærð.
Annars staðar á Suðurlandi, frá Selfossi og austur undir Heklu, mældust um 70 jarðskjálftar og voru þeir allir
minni en 1,5 að stærð. Upptök þeirra voru aðallega við Hestfjall, í Holtunum og í Landsveit.
Undir Heklu mældust tveir smáskjálftar 3. og 29. mars. Sá fyrri og stærri var 0,4 stig. Alls
13 smáskjálftar áttu upptök um 4 - 5 kílómetra austur og norðaustur af Heklu. Sá stærsti var 0,7 stig þann 17. mars.
Tvær nýjar jarðskjálftastöðvar voru settar upp á síðasta ári norðan og sunnan við Heklu og við það hefur
næmni kerfisins á svæðinu aukist. Við Vatnafjöll mældust 13 jarðskjálftar og var stærsti skjálftinn þar 1,5 stig.
Norðurland
Á Tjörnesbrotabeltinu mældust um 180 jarðskjálftar. Meirihlutinn var á vesturhelmingi Húsavíkur-Flateyjar
misgengisins austur af Flatey og fyrir mynni Eyjafjarðar. Stærsti skjálftinn, 2,7 að stærð, varð klukkan hálf eitt
aðfaranótt 21. mars, um fimm kílómetra norðaustur af Gjögurtá.
Í Öxarfirði og norður af Tjörnesi mældust um 70 skjálftar.
Við Þeistareyki mældust fjórir litlir skjálftar og 14 á Kröflusvæðinu, sá stærsti 1,9 að stærð klukkan 3:37 14. mars.
Rúmlega tugur skjálfta mældist tæplega 10 kílómetrum sunnan við byggðina í Kelduhverfi, flestir þann 8. mars.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdalsjökli mældust um 120 jarðskjálftar í mars. Þar af voru rúmlega 50 staðsettir inni í Kötluöskjunni,
allir innan við tvö stig. Smáhrina var í lok mánaðarins í vestanverðri öskjunni. Talsverð smáskjálftavirkni var
líka í nágrenni Austmannsbungu og norðan Hábungu. Um 25 grunnir skjálftar urðu við Goðalandsjökul og ríflega 10
við Hafursárjökul. Suðaustan Goðabungu voru 15 skjálftar staðsettir í þyrpingu á 4 - 6 kílómetra dýpi. Sá
stærsti var 2,5 að stærð þann 22. mars kl. 17:05. Nokkrir djúpir smáskjálftar urðu undir austan- og
suðaustanverðum Mýrdalsjökli.
Hálendi
Í mars mældust tæplega 300 skjálftar í Vatnajökli og Dyngjufjöllum. Þar af var bróðurparturinn í kringum Öskju og
Dyngjufjöll eða 239. Stærsti skjálftinn á svæðinu var 2,2. Smáskjálftahrina með um 120 skjálftum varð um þrjá
kílómetra suðvestur af Herðubreið, aðallega dagana 3. og 4. mars. Stærstur skjálfti þar mældist 2,2. Í Vatnajökli
mældust 82 skjálftar við Bárðarbungu, 10 í Kverkfjöllum og 27 í Grímsvötnum. Alls 42 skjálftar mældust sunnan til
í Skeiðarárjökli og í Öræfajökli. Langflestir þeirra voru örsmáir og dreifast að því er virðist eftir jaðri jöklanna.
Um 20 jarðskjálftar áttu upptök undir Torfajökli, en enginn þeirra náði tveimur stigum. Á Langjökulssvæðinu
mældust fimm smáskjálftar við Þórisjökul og sex við Sandvatn. Einn skjálfti var staðsettur við Hagafell. Stærstu
skjálftarnir á svæðinu voru 1,5 stig. Auk þess urðu þrír smáskjálftar vestan Geysis, einn í Borgarfirði og einn
undir Holtavörðuheiði í Hrútafirði.
Eftirlitsfólk í mars: Sigþrúður Ármannsdóttir, Gunnar B. Guðmundsson, Einar Kjartansson, Pálmi Erlendsson og Martin Hensch.