Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140106 - 20140112, vika 02

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 280 jarðskjálftar mældust í vikunni. Helsti atburður var jarðskjálfti 3,5 að stærð með upptök suðvestan við Svartsengi á Reykjanesskaga þann 7. janúar. Hann fannst vel í nágrenninu.

Suðurland

Viðvarandi smáskjálftavirkni, sem stafar af niðurdælingu affallsvatns við Hellisheiðarvirkjun, var við Húsmúla alla vikuna. Hátt í 50 skjálftar mældust, stærstu um eitt stig. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir á Krosssprungu og nokkrir í Ölfusinu, allir innan við einn að stærð.
Innan við 20 skjálftar mældust á Suðurlandsundirlendi. Flestir (8) áttu upptök á Hestvatnssprungu. Stærsti á svæðinu varð þar, en hann var 1,4 stig. Aðrir skjálftar urðu á öðrum þekktum sprungum.

Reykjanesskagi

Fimm skjálftar áttu upptök við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg. Stærsti var 3,0 stig.
Kl. 12:12 þann 7. janúar varð M3,5 skjálfti suðvestan við Svartsengi. Tilkynningar um að hann hefði fundist bárust frá Svartsengi, Grindavík og Reykjanesbæ. Aðeins einn forskjálfti mældist og tveir eftirskjálftar.
Nokkrir smáskjálftar (innan við eitt stig) mældust austan við Fagradalsfjall, en skjálftahrina var á svæðinu um áramótin. Á Krýsuvíkursvæðinu mældust einnig nokkrir smáskjálftar, stærsti 1,7 stig. Einn M1,2 skjálfti mældist við Bláfjöll.

Norðurland

Á sjötta tug skjálfta mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Hátt í 30 skjálftar áttu upptök á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Allir voru innan við tvö stig. Innan við 20 skjálftar mældust í Grímseyjarbeltinu. Stærsti var 2,5 stig. Þrír skjálftar mældust norður á Kolbeinseyjarhrygg.
Sjö smáskjálftar mældust á Kröflusvæðinu, um og innan við 0,5 að stærð. Einn smáskjálfti varð á Þeistareykjasvæðinu, 0,4 stig.

Hálendið

Þann 6. janúar mældust skjálftar vestan Hveravalla. Tuttugu skjálftar voru staðsettir, en fleiri sáust á skjálftamæli á Hveravöllum. Þeir voru of smáir til að staðsetja. Skjálftarnir sem voru staðsettir voru milli eitt og tvö stig að stærð. Tíu skjálftar í viðbót voru staðsettir sem urðu næstu tvo daga. Svipaðar hrinur mælast á eins til tveggja ára fresti á svæðinu. Upptök skjálftanna er á litlu dýpi og tengjast þeir líklega jarðhitavirkni. Einn skjálfti mældist undir norðvesturbrún Hofsjökuls þann 12. janúar. Hann var 2,4 að stærð. Einn skjálfti mældist með upptök við vesturjaðar Langjökuls, 1,3 stig, og einn sunnan Sandvatns, 1,0 stig.
Rúmlega 20 skjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli. Flestir áttu upptök við Kverkfjöll (M<1,5) og Kistufell (M<2,0). Tveir smáskjálftar mældust suður af Grímsfjalli, einn við eystri Skaftárketil, fjórir undir Öræfajökli og einn undir Skeiðarárjökli. Allir voru um og innan við einn að stærð.
Um 30 skjálftar mældust með upptök við Herðubreið. Stærsti var tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Vikrahrauni austan Öskju. Þeir voru innan við 0,5 að stærð. Einn smáskjálfti mældist undir Hlaupfelli og einn norðan undir Álftadalsdyngju, báðir innan við 0,5 stig.

Mýrdalsjökull

Aðeins 21 skjálfti mældist undir Mýrdalsjökli, en rólegt hefur verið þar síðustu vikur. Um tugur átti upptök undir vestanverðum jöklinum, nokkrir innan Kötluöskju og nokkrir við Hafursárjökul. Allir voru innan við 1,5 að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust fáeinir skjálftar innan við eitt stig.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir 13. janúar 2014