Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140113 - 20140119, vika 03

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni mældust 280 jarðskjálftar á landinu. Engar stærri hrinur urðu en virkasta svæðið var við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálftinn var 2,5 og varð hann við austari Skaftárketilinn. Lýst var yfir hlaupi úr vestari Skaftárkatli síðdegis á sunnudeginum.

Suðurland

Um 20 smáskjálftar mældust við Húsmúla á Hellisheiði, um helmingur fimmtudaginn 16. janúar. Nokkrir litlir skjálftar mældust í Ölfusi og rúmur tugur á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Laust eftir miðnætti á sunnudegi (19. janúar) varð stakur skjálfti við Heklu, rúmt stig að stærð.

Reykjanesskagi

Rólegt var á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg.

Norðurland

Tæplega 50 skjálftar, stærsti um tvö stig, mældust úti fyrir Norðurlandi, dreifðir í tíma og rúmi. Rúmur tugur smáskjálfta mældust á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Fremur rólegt var í Vatnajökli, rúmlega 20 skjálftar mældust, þar af tæplega helmingur við Kistufell. Klukkan 18:42 fimmtudaginn 16. janúar mældist skjáflti, M0,5 að stærð, um sjö kílómetrum suðsuðvestan við vestari Skaftárketilinn. Aðfaranótt sunnudagsins 19. janúar klukkan 01:23 varð annar skjáflti M1,5 að stærð skammt vestan við þennan sama ketil. Síðdegis á sunnudegi var tilkynnt að hlaup væri hafið, líklega úr vestari katlinum. Klukkan 18:58 sama dag varð skjálfti M2,5 að stærð um þremur kílómetrum norðaustan við austari Skaftárketilinn og líkur má að því leiða að hann tengist umbrotunum. Lítil skjálftavirkni var samfara þessu flóði enda reynist það fremur lítið.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls var öllu líflegra en þar mældust rúmlega 100 skjálftar, flestir (tæplega 70) í tveimur þyrpingum, við Herðubreið. Vestari þyrpingin sem var skammt suðvestan Herðubreiðar var virkari fyrri hluta vikunnar, en sú austari sem var undir austanverðum Herðubreiðartöglum síðari hlutann. Á fimmta tug skjálfta mældust í vestari þyrpingunni og rúmlega 20 í þeirri austari. Stærstu skjálftarnir voru rúmt stig að stærð. Um tugur smáskjálfta mældist norðan Upptyppinga síðari hluta vikunnar. Nokkrir litlir skjálftar mældust undir austurbarmi Öskju.
Í Vestara gosbeltinu mældust fimm skjálftar, þrír í Langjökli, einn austan jökulsins og einn undir Skjaldbreið. Stærsti skjálftinn á þessu svæði var rúmt stig.

Mýrdalsjökull

Rólegt var í Mýrdalsjökli eins og undanfarnar vikur. Innan við 20 skjálftar mældust í öllum jöklinum. Innan Kötluöskjunnar voru fimm skjálftar staðsettir og var sá stærsti um eitt stig. Rólegt var á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir