Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140224 - 20140302, vika 09

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 400 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í þessari viku. Skjálftahrinur urðu úti fyrir  mynni Eyjafjarðar, við Herðubreiðartögl og Húsmúla á Hellisheiði. Tveir skjálftar, báðir út af Eyjafirði, voru 3,4 að stærð og  voru það stærstu skjálftar, sem mældust í vikunni.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu hafa tæplega 130 skjálftar verið staðsettir, langflestir við Húsmúla á Hellisheiði. Um hádegi á fimmtudegi (27.  febrúar) hófst þar skjálftahrina og stóð hún fram á sunnudagskvöld. Stærsti skjálftinn var tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust  við Skarðsmýrarfjall á Hengilssvæðinu. Rúmur tugur skjálfta, allir innan við einn að stærð, mældist í Ölfusi, flestir í  Þrengslum. Um 20 skjálftar mældust á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi, um helmingur á Hestvatnssprungunni sem hrökk 21.  júní 2000. Á laugardagsmorgni (1. mars) varð stakur skjálfti, 1,9 að stærð, um fimm kílómetrum norðan Surtseyjar.

Reykjanesskagi

Nokkrir skjálftar mældust á Reykjanesskaga en enginn á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Um 90 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi. Mesta virknin var úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Á mánudagsmorgni (24. febrúar)  hófst skjálftahrina vestast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, úti fyrir mynni Eyjafjarðar, og stóð hún fram yfir hádegi. Rúmlega  30 skjálftar mældust og var sá stærsti um þrjú stig. Klukkan 08:06 á miðvikudegi (26. febrúar) varð skjálfti, 3,4 að stærð, og  annar sömu stærðar sex mínútum síðar, um fjórum kílómetrum austan við skjálftastaðinn frá mánudeginum. Tilkynningar bárust frá  Ólafsfirði, Siglufirði og Akureyri um að þeir hefðu fundist. Um tugur eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið. Á þriðja tug skjálfta  mældist í Öxarfirði, stærstu um tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Tæplega 30 skjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli, nokkuð dreifðir um vestan- og sunnanverðan jökulinn. Á þriðjudagsmorgni  (25. febrúar) varð skjálfti um einn að stærð á litlu dýpi við eystri Skaftárketilinn. Um 70 skjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Klukkan 21:25 á laugardagskvöldi (1. mars) hófst skjálftahrina, við  vestanverð Herðubreiðartögl, og stóð hún fram að miðnætti. Um 30 skjálftar voru staðsettir, stærstu um 1,5 að stærð.  Sunnan Langjökuls mældust þrír skjálftar, allir um og innan við eitt stig. Einn var undir norðanverðum Þórisjökli, annar sunnan  við Hagavatn og sá þriðji austan Sandvatns. Einn skjálfti, 2,3 að stærð, varð á miðvikudagsmorgni undir norðanverðum Hofsjökli.

Mýrdalsjökull

Rólegt var í Mýrdalsjökli. Um tugur skjálfta, þar af tveir í austanverðri Kötluöskjunni. Stærstu skjálftarnir voru rúmt stig. Fjórir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, allir um og innan við eitt stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir
4. mars 2014