Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140407 - 20140413, vika 15

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Yfir 700 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Skjálftahrina varð við Húsmúla með hátt í 300 skjálfta og um 150 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði. Allir skjálftar voru innan við þrjú stig að stærð.

Suðurland

Breytingar á niðurdælingu í borholur við Hellisheiðarvirkjun hafa valdið smáskjálftavirkni undanfarið. Í vikunni mældust hátt í 300 skjálftar á svæðinu við Húsmúla. Flestir urðu 7. apríl eða 170. Skjálftarnir voru allir innan við tvö stig að stærð. Um tugur skjálfta mældist sunnan við þessa virkni 7. og 13. apríl við Hveradali. Stærsti var 2,2 stig, en aðrir voru um og innan við 0,5 stig. Fáir skjálftar mældust í Ölfusi.
Um 20 skjálftar áttu upptök á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendinu. Um helmingur varð á Hestvatnssprungu. Tveir smáskjálftar mældust við Heklu. Allir skjálftarnir voru af stærð um og innan við eitt stig.

Reykjanesskagi og -hryggur

Þann 13. apríl mældist skjálftahrina úti á Reykjaneshrygg. Upptökin voru suðvestan Geirfugladrangs um 40 kílómetra frá landi. Þrjátíu jarðskjálftar mældust, stærsti 2,9 stig. Þann 4. apríl varð hrina á svipuðum slóðum.
Virkasta svæðið á Reykjanesskaga var við Fagradalsfjall, en þar hafa mælst hrinur af og til síðasta árið. Yfir 50 skjálftar mældust dagana 7. - 10. apríl, um helmingur fyrsta daginn. Stæsti skjálftinn var 1,9 stig. Um tugur skjálfta mældist norðaustan Grindavíkur, flestir 9. apríl. Þeir voru allir innan við 1,5 stig að stærð. Á annan tug smáskjálfta átti upptök á Krýsuvíkursvæðinu, allir 9. apríl. Tveir smáskjálftar mældust við Reykjanestá og einn við Bláfjöll, austast á skaganum.

Norðurland

Hrina jarðskjálfta varð í Öxarfirði í vikunni. Um 150 skjálftar mældust, stærsti 2,9 stig. Um helmingur varð 8. apríl. Um tíu skjálftar voru staðsettir norður af Eyjafirði og vestur af Grímsey 10. apríl. Þeir voru um tvö stig að stærð, stærstu 2,3. Aðrir skjálftar í Tjörnesbrotabeltinu dreifðust um svæðið.
Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og einn á Þeistareykjasvæðinu, allir minni en 0,5 stig.

Hálendið

Á þriðja tug skjálfta mældist undir Vatnajökli. Upptök nokkurra voru við Kistufell, Kverkfjöll og á Lokahrygg. En staðsetning annarra skjálfta var fremur ónákvæm og dreifðust þeir um sunnan og suðaustanverðan jökulinn. Stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð með upptök við Kistufell.
Við Dyngjufjöll mældust 30 skjálftar. Nokkrir urðu við Öskju og Upptyppinga, en langflestir undir og vestan við Herðubreiðartögl. Allir voru innan við eitt stig að stærð nema einn 1,3 skjálfti.
Fáir jarðskjálftar mældust í vestur gosbeltinu. Fjórir mældust undir vestanverðum Langjökli og einn suðvestan Jarlhettna. Einn skjálfti varð sunnan Blöndu og einn norðan Hofsjökuls. Skjálftarnir voru um og innan við einn að stærð.

Mýrdalsjökull

Á þriðja tug skjálfta átti upptök undir Mýrdalsjökli í vikunni, um tugur í Kötluöskju og undir vestanverðum jöklinum og nokkrir við Hafursárjökul. Allir skjálftarnir voru minni en 1,5 stig.
Á Torfajökulssvæðinu voru sex skjálftar staðsettir, um og innan við einn að stærð.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
15. apríl 2014