| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20140414 - 20140420, vika 16

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 600 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Mesta virknin var á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla á Hellisheiði. Smáhrina varð aðfaranótt mánudags undir Vatnafjöllum og þar mældist stærsti skjálfti vikunnar, tæp þrjú stig.
Suðurland
Smáskjálftahrinan sem verið hefur undanfarið á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar við Húsmúla á Hellisheiði hélt áfram, einkum fyrri hluta vikunnar. Af um 300 skjálftum sem
staðsettir voru á Hengilssvæðinu voru langflestir á því svæði. Tveir skjálftar voru stærri en tvö stig. Sá fyrri og stærri varð kl. 17:34 mánudaginn 14.apríl, hann var 2,5 að stærð. Sá síðari varð klukkan 20:43 sama dag, 2,1 að stærð.
Smáhrina hófst um klukkan 04:30 þann 14. apríl undir Vatnafjöllum, um 10 kílómetra suður af Heklu. Hrinan stóð fram á morguninn og mældist á annan tug skjálfta. Fyrsti skjálftinn var stærstur 2,9 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálfti á landinu í vikunni. Fjórir skjálftar mældust aðfaranótt laugardagsins 19. apríl frá kl. 02:19 til 03:46 um það bil fjórum kílómetrum vestsuðvestan við Árnes, stærsti 1,7.
Reykjanesskagi
Fremur rólegt var á Reykjanesskaganum. Tæplega 20 skjálftar mældust, flestir við Núpshlíðarháls og Fagradalsfjall þar sem skjálftahrina var í síðustu viku. Einn skjálfti mældist í Bláfjöllum og einn á Reykjaneshrygg. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig.
Norðurland
Um 80 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni. Þar af um 30 í Öxarfirði, stærsti 2,2, en þar var skjálftahrina í síðustu viku. Rúmlega 20 smáskjálftar mældust um átta kílómetra suðvestur af Ásbyrgi fyrri hluta vikunnar, stærsti um eitt stig. Rólegt var á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.
Hálendið
Rúmlega 70 skjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli. Á annan tug var staðsettur við Kistufell, stærsti um 1,5 að stærð og það var jafnframt sá stærsti í jöklinum þessa vikuna. Aðrir voru dreifðir um jökulinn og staðsetning fremur ónákvæm.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust rúmlega 30 skjálftar, um tugur við Öskju, annað eins norðan Upptyppinga og aðrir við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjáfltinn var 1,4 skammt suðvestan Herðubreiðar. Einn smáskjálfti var við Tungnafellsjökul og annar við Hágöngulón. Tveir smáskjálftar urðu í Vestara gosbeltinu. Annar undir Eystri-Hagafellsjökli og hinn skammt vestan Hveravella.
Mýrdalsjökull
Um 20 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, tveir innan Kötluöskjunnar, aðrir í vestanverðum jöklinum og við Hafusárjökul. Stærsti skjálftinn var í austanverðri öskjunni, 1,7 að stærð. Tæpur tugur skjálfta varð á Torfajökulssvæðinu, stærsti 1,3.
Sigþrúður Ármannsdóttir
23. apríl 2014.