Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140421 - 20140427, vika 17

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 590 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Stærsti skjálftinn var 3,4 að stærð með upptök um 6 km norðaustur af Eldey á Reykjaneshrygg í jarðskjálftahrinu sem þar var þann 23. apríl. Snörp jarðskjálftahrina varð þann 26. apríl við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg. Tæplega 80 smáskjálftar mældust í skjálftahrinu við Flatey á Skjálfanda.

Suðurland

Á niðurdælingasvæði OR við Húsmúla og Gráuhnjúka við Hellisheiði mældust 72 jarðskjálftar. Þar af voru 6 við Gráuhnjúka en hinir við Húsmúla. Af þeim voru 7 á stærðarbilinu 1,0 til 1,4 en allir aðrir undir 1 að stærð.
Annars staðar á Hengilssvæðinu aðallega við Ölkelduhás voru 7 jarðskjálfar og sá stærsti var 1,7 að stærð.

Á Suðurlandinu í Ölfusinu mældust 13 jarðskjálftar. Annarsstaðar á Suðurlandi voru 17 jarðskjálftar sem áttu upptök í Flóanum, í Holtum og Landsveit svo og við Vatanfjöll. Einn smáskjálfti -0.3 að stærð var um 5 km norðaustu af Heklu. Allir skjálftarnir á Suðurlandi voru minni en 1,2.

Reykjaneshryggur og Reykjanesskagi

Um kvöldið þann 23.4. varð jarðskjálftahrina um 6 km norðaustur af Eldey á Reykjaneshrygg. Stærsti skjálftinn og sá fyrsti varð kl. 19:41 og var 3,4 að stærð. Næst stærsti skjálftinn varð um mínútu síðar og var 2,1 að stærð. Í allt mældust um 25 jarðskjálftar í þessari hrinu.
Frá 22.4. til 25.4. mældust 8 jarðskjálftar við og um 10 km suðvestur af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg. Þeir voru allir undir 2,1 að stærð. Laugardagsmorguninn þann 26.4. varð síðan snörp jarðskjálftahrina við Geirfugladranginn. Hún var mest frá því kl. 09:30 og fram til kl. 10 og svo aftur á milli kl. 12-13. Stærstu skjálftarnir voru um 2,8 og 2,9 að stærð. Í allt mældust um 60 jarðskjálftar í þessari hrinu.

Á Reykjanesskaganum mældust smáskjálftar við Reykjnestána, Fagradalsfjall, á Krýsuvíkursvæðinu, við Brennisteinsfjöll og við Bláfjöll. Í allt voru þetta um 22 jarðskjálftar og sá stærsti 1,4 að stærð með upptök við Reykjanestána.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust 128 jarðskjálftar. Upptök skjálftanna voru á Húsavíkur-Flateyrjarmisgenginu svo og á Grímseyjarbeltinu milli Grímseyjar og Öxarfjarðar. Stærsti skjálftinn mældist 2,7 stig með upptök í Öxarfirði. Einnig mældist skjálfti að stærð 2,6 um 6 km austur af Dalvík. Af þessum 128 skjálftum voru um 78 þeirra með upptök um 2-3 km norðvestur af Flatey á Skjálfanda í skjálftahrinu sem þar stóð yfir frá 25.-27. apríl. Þeir voru allir minni en 1,7 að stærð.

Hálendið

Undir og við Vatnajökul voru um 82 skjálftar. Upptök þeirra voru á Lokahrygg, við Grímsvötni, Bárðarbungu, Kistufell og Kverkfjöll. Einnig dreifðust þeir frá Skeiðarárjökli og suður í Öræfajökul. Hafa ber í huga að mælum hefur fjölgað við það svæði. Tveir stærstu skjálftarnir voru 1,7 að stærð með upptök um 11 km norðaustur af Bárðarbungu.

Við Öskju og Herðubreið mældust um 60 jarðskjálftar. Flestir við Herðubreið og Töglin. Stærstu skjálftarnir voru um 2 að stærð með upptök við Herðubreiðartögl.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældust 27 jarðskjálftar. Þar af voru um 8 undir vesturhlutanum, Goðabungu og mældist stærsti skjálftinn undir jöklinum þar sem var 1,2 stig. Þrír smáskjálftar voru við Hafursárjökul og flestir hinna undir suðausturhluta Kötluöskjunnar.

Á Torfajökulssvæðinu voru um 12 skjálftar. Stærsti skjálftinn þar var 1,2 að stærð.

Gunnar B. Gudmundssson