Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140602 - 20140608, vika 23

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 550 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Stærsti skjálftinn vikunnar mældist á þekktri jarðskjálftasprungu við Vatnafjöll þann 3. júni kl. 14:13 og var hann 2,5 að stærð. Mikið dró úr virkninni í hrinum á Hálendinu, um 90 smáskjálftar (M<1,2) áttu upptök við Herðubreiðartögl og um 60 (M<1,5) austan Bárðarbungu. Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af um helmingur inni í Kötluöskjunni. Allir voru þeir innan við 1,5 stig.

Reykjanesskagi

Rúmlega 15 smáskjálftar mældust á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga, enginn þeirra náði 1,5 stigi. Um 20 jarðskjálftar áttu upptök á Reykjaneshrygg, sá stærsti var 1,7 að stærð við Geirfugladrang.

Suðurland

Smávirkni var á Hengilssvæðinu, tæplega 10 skjálftar voru staðsettir við Húsmúla og nokkrir við Eiturhól og Hrómundartind. Fimmtán skjálftar mældust á sprungum í Ölfusi og um 20 á Suðurlandsundirlendinu. Stærsti skjálftinn varð þann 3. júni kl. 14:13. Hann mældist 2,5 að stærð og upptök hans voru á Vatnafjallasprungu.

Mýrdalsjökull

Ríflega 60 jarðskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, allir innan við 1,2 stig. Þar af mældust um 20 við Goðaland, sjö við Hafursárjökul og um 30 innan Kötluöskjunnar. Djúp smávirkni var líka sunnan Lágu-Hvola. Um tylft smáskjálfta átti upptök sunnan Austmannsbungu sem líklega eru á 25-28 km dýpi. Auk þess var smávirkni á Torfajökulssvæðinu, um 20 skjálftar voru staðsettir þar.

Hálendið

  • Alls voru tæplega 130 jarðskjálftar staðsettir á Vatnajökulssvæðinu, þar af flestir eða rúmlega 50 austan Bárðarbungu. Auk þess áttu nokkrir skjálftar upptök við Kverkfjöll, Kistufell og á Lokahrygg. Í byrjun vikunnar mældust um 20 ísskjálftar í Síðujökli, smávirkni var líka í kringum Skeiðarár- og Öræfarjökul. Allir jarðskjálftar undir Vatnajökli voru minni en 1,5 að stærð.
  • Mikið dró úr virkninni í hrinu við Herðubreiðartögl. Um 60 smáskjálftar áttu upptök þar og voru þeir allir innan við 1,0 að stærð. Rúmlega 20 skjálftar mældust austan Herðubreiðartagla og norðan Herðurbreidar. Smávirkni var í austanverðri Öskju. Tvær djúpar smáhrinur mældust norðan Öskju og norðvestan Upptyppinga.
  • Undir vestanverðum Langjökli var smáhrina þann 5. júni, alls voru tæplega 15 jarðskjálftar staðsetir þar, sá stærsti var 1,7 að stærð.

    Norðurland

    Á sprungum úti fyrir Norðurlandi mældust ríflega 65 skjálftar, þar af flestir eða um 50 á Grímseyjarbeltinu. Stærsti skjálftinn var 1,9 að stærð austan Grímseyjar. Smávirkni var á Húsavíkur-Flateyjarmisgengi og við Eyjafjarðarál. Um 30 skjálftar mældust inni í Kröfluöskjunni og nokkrir við Þeistareyki.

    Martin Hensch