Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140630 - 20140706, vika 27

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 260 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar. Aukin virkni var í austanverðri Kötluöskjunni og skjálftahrina við Fjórðungsöldu á Sprengisandi.

Suðurland

Tæpur tugur smáskjálfta mældist á Hengilssvæðinu, um helmingur við Húsmúla á Hellisheiði. Nokkrir smáskjálftar mældust auk þess í Ölfusi og á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Einn grunnur skjálfti varð undir suðvestanverðri Heklu aðfaranótt mánudagsins 30. júní. Hann var 0,7 að stærð.

Reykjanesskagi

Frá 14:00 til 14:45 þann 2. júlí varð smáhrina vestsuðvestur af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg. Um tugur skjálfta mældist, stærsti tæp þrjú stig. Nokkrir skjálftar mældust á hryggnum nær landi, stærsti um tvö stig. Þrír skjálftar, stærsti 1,5, urðu við Vífilsfell, austast á Reykjanesskaganum og fáeinir vestar á skaganum.

Norðurland

Tæplega 30 skjálftar, dreifðir í tíma og rúmi, mældust á og úti fyrir Norðurlandi. Stærstu voru rúm tvö stig.

Hálendið

Um 60 skjálftar mældust undir Vatnajökli þar af tæplega helmingur við Bárðarbungu. Stærstu skjálftar á því svæði voru um og innan við eitt stig. Síðari hluta vikunnar voru rúmlega 10 skjálftar staðsettir undir Lokahrygg, stærsti tvö stig. Einn smáskjálfti varð undir vestari Skaftárkatlinum að kvöldi 2. júlí. Aðrir skjálftar dreifðust einkum um vestanverðan jökulinn. Aðfaranótt miðvikudagsins 3. júlí hófst skjálftahrina við Fjórðungsöldu á Sprengisandi og stóð hún fram eftir degi. Nokkrir skjálftar mældust daglega á þessum slóðum næstu daga á eftir og í vikulok höfðu um 30 skjálftar mælst, stærsti 2,4.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust um 15 smáskjálftar, flestir við Herðubreiðartögl. Enginn skjálfti varð í vestara gosbeltinu í vikunni.

Mýrdalsjökull

Tæplega 80 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, langflestir innan Kötluöskjunnar. Um 40 skjálftar, á litlu dýpi, mældust í austanverðri Kötluöskjunni nálægt sigkötlum 10, 11 og 12. Virknin þar hefur aukist frá síðustu viku. Fyrri hluta vikunnar var tiltölulega rólegt á þessum slóðum en að morgni fimmtudagsins 3. júlí jókst virknin og hélst út vikuna. Flestir hafa skjálftarnir verið litlir en nokkrir náð yfir tvö stig og sá stærsti sem varð laust fyrir miðnætti (klukkan 23:44) þann 6. júlí var 2,7 að stærð. Í sunnanverðri öskjunnu mældist á annan tug smáskjálfta. Mikið vatn hefur mælst í Múlakvísl og mælingar sýnt aukna rafleiðni auk þess sem jöklafýlu varð vart frá ánni sunnudaginn 6. júlí. Líklegt er að þessir grunnu skjálftar tengist aukinni jarðhitavirkni sem orsakar hækkun á rafleiðni árinnar. Einn djúpur smáskjálfti varð aðfaranótt mánudagsins 30. júní klukkan 02:50 við austurbarm Kötlusökjunnar. Hann var 0,1 að stærð og á rúmlega 20 kílómetra dýpi. Fáir og smáir skjálftar mældust í vestanverðum jöklinum. Djúpir skjálftar hafa mælst af og til á þessum slóðum undanfarin ár. Nokkrir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, stærstu um tvö stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir