Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140721 - 20140727, vika 30

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 360 skjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í vikunni. Stærsti atburður vikunnar var berghlaup úr suðausturbarmi Öskju sem olli flóðbylgju í Öskjuvatni. Allir jarðskjálftar á landi voru innan við þrjú stig.

Suðurland

Tæplega 20 smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu, um tugur í Ölfusi og annað eins á Suðurlandsundirlendinu. Einn smáskjálfti mældist um fimm kílómetra norður af Heklu

Reykjanesskagi

Um 60 skjálftar mældust á Reykjanesskaganum. Mesta virknin var undir Fagradalsfjalli en þar hófst skjálftahrina laust eftir miðnætti 24. júlí sem stóð fram á miðjan morgun. Rúmlega 30 skjálftar mældust í hrinunni en alls á fimmta tuginn í vikunni allri. Allir voru skjálftarnir innan við tvö stig. Um tugur skjálfta, stærsti tvö stig, mældist við Kleifarvatn og nokkrir undir Núpshlíðarhálsi.

Norðurland

Í Grímseyjarbeltinu mældust tæplega 30 skjálftar, flestir í Öxarfirði og um tugur á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust á svæðunum við Þeistareyki og Kröflu. Nokkrir skjálftar mældust norður á Kolbeinseyjarhrygg, stærsti um þrjú stig.

Hálendið

Undir Vatnajökli mældust um 60 skjálftar. Mesta virknin var við Bárðarbungu, rúmlega 40. Aðrir dreifðust um vestan- og sunnanverðan jökulinn. Nokkrir áttu upptök vestan Bárðarbungu meðal annars við Tungnafellsjökul og Fjórðungsöldu á Sprengisandi. Allir voru skjálftarnir innan við tvö stig. Á Dyngjufjallasvæðinu mældust um 50 skjálftar. Stærsti atburður á svæðinu var að gríðarlega stór skriða féll úr suðausturhluta öskjubarms Öskju og niður í Öskjuvatn laust fyrir miðnætti mánudagskvöldið 21. júlí. Skriðan orsakaði flóðbylgju í Öskjuvatn og kom hreyfingu á laust efni sem fyrir var. Óróapúls sem stóð yfir í um 20 mínútur mældist á jarðskjálfamælum á svæðinu á sama tíma. Ljós mökkur sást einnig rísa upp af svæðinu. Við austanverðan öskjubarm Öskju mældust þrír smáskjálftar. Í upphafi og við lok vikunnar voru á annan tug skjálfta staðsettir milli Öskju og Vaðöldu. Flestir voru á litlu dýpi og sá stærsti rúm tvö stig. Aðrir skjálftar voru við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Í vestara gosbeltinu mældust fimm skjálftar. Þrír urðu undir Geitlandsjökli, einn við Hagafell (sunnan Langjökuls) og einn vestan og annar norðan Hveravalla.

Mýrdalsjökull

Heldur minni virkni var undir Mýrdalsjökli í þessari viku en vikuna á undan. Hátt í 60 skjálftar voru staðsettir undir jöklinum öllum. Rúmlega 20 smáskjálftar voru við Hafursárjökul og um tugur í vesturjöklinum. Innan Kötluöskjunnar mældust um 10 skjálftar, þar á meðal stærsti skjálftinn sem varð í jöklinum þessa vikuna. Hann varð í upphafi viku undir norðanverðri öskjunni og var rúm tvö stig. Auk þess mældust nokkrir smáskjálftar í Kötlu- og Entujöklum. Engir djúpir skjálftar mældust innan öskjunnar í vikunni. Á annan tug skjálfta mældist á Torfajökulssvæðinu, stærstu rúmt stig. Laust fyrir hádegi sunnudaginn 27. júlí varð skjálfti um 70 kílómetra suður af Vík í Mýrdal. Hann var 3,1 að stærð og var það stærsti skjálfti vikunnar.

Sigþrúður Ármannsdótir