| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20140728 - 20140803, vika 31
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 330 jarðskjálftar mældust í vikunni. Helstu atburðir voru skjálftavirkni nyrst á Sprengisandi og vestast í Torfajökulsöskjunni. Stærstu skjálftar vikunnar voru um 2,5 stig.
Suðurland
Á þriðja tug skjálfta mældist á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Um tugur átti upptök við Húsmúla, flestir 29. júlí og stærsti 2,2 stig. Aðrir skjálftar dreifðust um svæðið, allir um og innan við einn að stærð.
Tæplega 20 skjálftar urðu á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendinu. Allir voru minni en 1,5 stig.
Reykjanesskagi
Á Reykjaneshrygg mældust þrír jarðskjálftar, allir í nágrenni Geirfugladrangs og tæplega tvö stig að stærð.
Um tugur smáskjálfta átti upptök á Reykjanesskaga. Flestir urðu á Krýsuvíkursvæðinu og nokkrir við Fagradalsfjall. Allir voru innan við 1,5 stig.
Norðurland
Í Tjörnesbrotabeltinu mældust yfir 50 skjálftar. Flestir voru í Grímseyjarbeltinu, austan og suðaustan Grímseyjar. Stærstu skjálftarnir voru um 2,5 stig. Í Öxarfirði mældust 16 skjálftar, stærsti 1,5 stig. Aðrir skjálftar á svæðinu voru fáir og dreifðir.
Í nyrðra gosbelti mældist tugur smáskjálfta á Kröflusvæðinu og við Þeistareyki. Stærsti var 0,5 við Kröflu.
Hálendið
Nyrst á Sprengisandi, austsuðaustur af Laugafelli, mældust um 30 skjálftar. Um helmingur varð 3. ágúst og stærsti skjálftinn var 2,2 stig.
Um 60 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Á fimmta tug átti upptök við Bárðarbungu og Kistufell, allir minni en tvö stig. Við Hamarinn og Lokahrygg mældust sjö skjálftar, stærsti 1,1. Einn smáskjálfti varð undir Grímsvötnum og tveir við Þórðarhyrnu.
Á Dyngjufjallasvæðinu mældust rúmlega 50 skjálftar. Allir voru innan við 1,5 að stærð. Upptökin voru austan Öskju, við Herðubreið og Herðubreiðartögl og norðan Vaðöldu.
Aðeins tveir skjálftar mældust í vestara gosbeltinu, einn norðan Langjökuls og einn sunnan Skjaldbreiðar. Þeir voru um eitt stig að stærð.
Mýrdalsjökull
Um 50 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Um 20 áttu upptök undir vestanverðum jöklinum, rúmur tugur innan Kötluöskju, um tugur við Hafursárjökul sunnan öskjunnar og nokkrir undir Kötlujökli. Stærsti skjálftinn mældist 1,5 stig undir vestanverðum Mýrdalsjökli.
Smáhrina varð vestast í Torfajökulsöskjunni. Um 20 skjálftar mældust, flestir 31. júlí. Stærstu skjálftarnir voru tæplega tvö stig. Tæplega 10 skjálftar áttu upptök í sunnan og suðaustanverðri öskjunni.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir