Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20141013 - 20141019, vika 42

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Ríflega tólf hundruð skjálftar mældust í vikunni. Langstærsti hluti þeirra varð á umbrotasvæðinu í norðvestanverðum Vatnajökli. Stærstu skjálftarnir sem mældust í vikunni urðu við Bárðarbungu 15. og 18. október, báðir Mlw 5,4 að stærð. Nokkur fjöldi skjálfta mældist einnig við norðanverðan ganginn (innskotið eða aðfærsluæð kviku) allt frá gosstöðvunum í Holuhrauni og allt að 10 km inn undir Dyngjujökul en í byrjun þessarar viku hafði gosið í Holuhrauni staðið 6 vikur.
Enn sem komið er er aðeins búið að yfirfara 818 skjálfta af þeim rúmlega 1220 sem mældust.

Suðurland

Lítil skjálftavirkni mældist í Suðurlandsbrotabeltinu, virknin var dreifð en skjálftar mældust m.a. á sunnar Hestvatns, nærri Ketilstaðaholti og við Vatnafjöll, sunna Heklu.

Reykjanesskagi

Nokkrir smáskjálftar mældust úti fyrir Reykjanesi en fáir á Reykjanesskaganum; þrír við Kleifarvatn, einn við Brennisteinsfjöll og einn við Bláfjöll.

Norðurland

Skjálftar mældust úti fyrir mynni Eyjafjarðar, vestan Flateyjar og svo í Öxarfirði en þar urðu rúmlega 40 skjálftar á stærðarbilinu ML-0,1-2,3.

Hálendið

Vikan er 7. vika gossins í Holuhrauni og enn mælist mikil skjálftavirkni í Bárðarbungu og undir norðanverðum Vatnajökli. Langflestir skjálftarnir verða við Bárðarbungu, mest við norðanverðan öskjubarminn. Fimm skjálftar mældust af stærð Mlw 5,0 eða stærri þessa vikuna. Þeir urðu 15. október (5,4), 16. október (5,0), 18. október (5,4 og 5,0) og 19. október (5,2). Þar að auki mældust a.m.k. 26 skjálftar af stærðinni 4,0-4,9.

Mýrdalsjökull

Níu skjálftar mældust vestur af Goðabungu og tveir í Hafursárjökli. Einnig mældust 12 skjálftar innan Kötluöskjunnar eða rétt austan við hana, flestir skjálftarnir austast í öskjunni (líklega við sigketil nr. 11 eða 12) en líklegt er að skjálftarnir hafi orðið í tengslum við lítið hlaup úr katli/kötlum í austanverðri öskjunni sem hófst laugardaginn 11. október. Þann dag mældust 7-8 skjálftar á þessum sömu slóðum (stærsti skjálfti um ML 3) og um sólarhring seinna greindist aukin rafleiðni í Múlakvísl og var leiðnin há allt til 14. október.

Sigurlaug Hjaltadóttir, Kristín Jónsdóttir ásamt Sigþrúði Ármannsdóttur, Bergþóru S. Þorbjarnardóttur og Þórunni Skaftadóttur sem einnig komu að úrvinnslu þessa vikuna.