Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20141117 - 20141123, vika 47

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 1030 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands, þar af langflestir eða um 880 við Bárðarbungu og í kvikuganginum. Stærsti skjálfti vikunnar mældist 5,1 stig kl. 09:22 þann 23. nóvember á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. Alls mældust 72 skjálftar stærri en fjögur stig og 152 stærri en þrjú stig. Auk þess varð smáhrina sunnan Langjökuls um helgina. Fremur rólegt var undir Mýrdalsjökli.

Suðurland

Um tylft smáskjálfta varð á Hengilssvæðinu, í Ölfusi og á jarðskjálftasprungum á Suðurlandsundirlendinu. Enginn þeirra náði stærðinni 1,5.

Reykjanesskagi

Aðeins 10 jarðskjálftar voru staðsettir á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga og tveir á Reykjaneshrygg. Sá stærsti var 2,3 stig þann 19. nóvember kl. 12:37 við Kleifarvatn.

Norðurland

Fremur rólegt var úti fyrir Norðurlandi. Um 20 skjálftar voru staðsettir á Grímseyjarbeltinu, fimm á Húsavíkur-Flateyjarbeltinu og einn við Eyjafjarðarál. Stærsti skjálfti vikunnar var 2,8 stig norðan Eyjafjarðar. Auk þess mældist einn smáskjálfti við Þeistareyki.

Hálendið

Bárðarbunga: Enn er talsverð skjálftavirkni við Bárðarbunguöskjuna, um 650 skjálftar voru staðsettir þar. Stærsti skjálftinn mældist á sunnudagsmorgun kl. 09:22 á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar og var hann 5,1 stig. Auk þess mældust 72 skjálftar yfir 4,0 og 152 milli 3,0 og 3,9 stig. Aukin virkni sást á undan 5,1 stiga skjálftanum en minnkaði nokkuð í kjölfar hans. Svipuð hegðun hefur oft sést áður með aukinni virkni fyrir og minni virkni eftir stóra skjálfta í Bárðarbunguöskjunni.

Berggangur: Tæplega 190 jarðskjálftar áttu upptök í norðurhluta kvikugangsins, sá stærsti var 1,9 stig þann 20. nóvember kl. 01:03. Flestir urðu við norðurhlutann milli gosstöðvanna og norðurhluta Dyngjujökuls. Hins vegar hafa nokkrir skjálftar orðið sunnar við sprungubeygjuna þar sem kvikuæðin hökti 23. ágúst, en á þessu svæði hefur verið tíðindalítið síðustu vikur.

Önnur svæði: Um 25 jarðskjálftar mældust við Tungnafellsjökul, sá stærsti var 3,1 stig þann 18. nóvember kl. 18:56. Nokkrir smáskjálftar urðu á Lokahrygg milli Hamarsins og Grímsvatna og undir Skeiðarárjökli. Rúmlega 40 skjálftar áttu upptök í kringum Herðubreið, Herðubreiðartögl og Öskju, allir minni en 1,7 stig. Smáhrina hófst sunnan Langjökuls um helgina. Um 15 skjálftar voru staðsettir þar, en enginn þeirra náði stærðinni 2,0.

Mýrdalsjökull

Sjö jarðskjálftar áttu upptök undir Kötluöskjunni. Sá stærsti mældist þann 19. nóvember kl. 01:17 og var hann 1,9 stig. Nokkrir smáskjálftar urðu við Hafursárjökul og Goðaland, allir minni en einn að stærð. Þrír skjálftar 2,0 að stærð mældust á Torfajökulssvæðinu og einn 0,9 stiga skjálfti við Heklu.

Martin Hensch