Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20141201 - 20141207, vika 49

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Hátt í 800 skjálftar mældust í vikunni, flestir við Bárðarbungu eins og undanfarna mánuði. Tiltölulega rólegt var á öðrum svæðum. Þrír skjálftar voru stærri en fimm stig, allir við Bárðarbunguöskjuna.

Suðurland

Um tugur skjálfta mældist á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Stærsti skjálftinn var tvö stig við Hengilinn. Nokkrir skjálftar mældust á Suðurlandsundirlendi, allir um og innan við einn að stærð.

Reykjanesskagi

Rólegt var á Reykjanesskaga og -hrygg.

Norðurland

Um 10 skjálftar mældust í Öxarfirði, annað eins úti fyrir mynni Eyjafjarðar, aðrir dreifðari. Í heildina mældust hátt í 30 skjálftar úti fyrir Norðurlandi auk nokkurra smáskjálfta við Þeistareyki og Kröflu. Stærsti skjálftinn var 2,4 að stærð út af Eyjafirði.

Hálendið

Rúmlega 600 skjálftar mældust við Bárðarbungu. Mesta virknin var við hana norðaustanverða. Þrír skjálftar yfir fimm stigum mældust í vikunni. Sá fyrsti M5,2 varð klukkan 12:52 á mánudegi (1. desember). Annar sem jafnframt var sá stærsti af þessum þremur, M5,4 varð rúmum hálfum sólarhring síðar klukkan 02:18 aðfaranótt þriðjudags (2. desember). Sá síðasti varð síðan klukkan 21:05 á föstudagskvöldi 5. desember, M5,1 að stærð. Stærsti skjálftinn varð við norðaustanverða öskjubrúnina en hinir tveir við hana suðaustanverða. Um 20 litlir skjálftar mældust í ganginum, flestir undir honum norðanverðum. Rúmlega 20 skjálftar mældust undir og norður af Tungnafellsjökli. Stærsti skjálftinn var rúm tvö stig. Tveir skjálftar voru staðsettir við austanvert Öskjuvatn, sá stærri rúm tvö stig. Á annan tug skjálfta mældist við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti rúm tvö stig. Lítil virkni var í vestara gosbeltinu.

Mýrdalsjökull

Tiltölulega rólegt var undir Mýrdalsjökli, einungis um tugur skjálfta. Flestir voru innan Kötluöskjunnar eða rétt við öskjubarminn. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir