| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20141215 - 20141221, vika 51

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Yfir 570 jarðskjálftar mældust í vikunni, þar af um 350 í Bárðarbungu. Stærstu skjálftarnir urðu dagana 15. og 17. desember við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. Þeir voru af stærð 5,4 og 5,3 stig og fundust á Akureyri.
Suðurland
Innan við tug smáskjálfta mældist á Hellisheiði, allir innan við eitt stig að stærð.
Á Suðurlandsundirlendinu mældust nokkrir skjálftar á þekktum sprungum. Allir voru innan við eitt stig. Nokkrir skjálftar mældust við Vatnafjöll austast á svæðinu.
Reykjanesskagi
Nokkur virkni var á Reykjaneshrygg við Geirfugladrang og -sker. Um tugur skjálfta mældist, stærstu tæplega þrjú stig. Einn skjálfti, 1,5 stig, mældist við Reykjanestá. Engir skjálftar mældust með upptök á Reykjanesskaga.
Norðurland
Fáir skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu norður af landinu. Aðeins um 10 skjálftar voru staðsettir, flestir í Öxarfirði. Allir voru innan við tvö stig að stærð.
Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir á Þeistareykja- og Kröflusvæðum.
Hálendið
Flestir skjálftar mældust við Bárðarbungu eins og síðustu mánuði eða 345 af um 570. Tveir skjálftar voru yfir fimm stigum, kl. 09:27 15. desember, 5,4 stig, og kl. 13:59 17. desember, 5,3 stig. Upptök beggja voru við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar og fundust báðir á Akureyri. Um 20 skjálftar voru af stærð milli 4 og 5 stig og hátt í 50 af stærð milli 3 og 4 stig. Yfir 40 skjálftar mældust í kvikuganginum, allir innan við 2,5 stig að stærð. Á Lokahrygg austan Hamarsins mældust þrír skjálftar minni en 1,5 stig.
Yfir 40 skjálftar mældust norðan Tungnafellsjökuls. Stærstu voru um og undir þremur stigum.
Í kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl voru um 50 skjálftar staðsettir. Við Dreka mældust nokkrir smáskjálftar.
Í vesturgosbeltinu mældist innan við tugur skjálfta. Flestir voru við Högnhöfða norðan Geysis, en þar hefur verið einhver virkni undanfarið. Skjálftarnir þar voru allir um 1,5 stig. Tveir skjálftar mældust undir Langjökli, rúmlega eitt stig að stærð.
Mýrdalsjökull
Um 20 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, flestir innan Kötluöskju. Enginn náði tveimur stigum að stærð.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, 22. desember 2014