| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20141222 - 20141228, vika 52

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 900 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Flestir skjálftanna eða tæplega 500 áttu upptök í Bárðarbungu. Þar mældist stærsti skjálftinn 5,0 að stærð þann 25.12. kl. 22:53. Jarðskjálftahrina um 10-11 km norður af Geysi í Haukadal hófst í byrjun vikunnar og stóð fram eftir allri vikunni. Stærsti skjálftinn mældist 3,1 stig þann 25.12. kl. 05:58. Hann fannst mjög vel við Geysi í Haukadal. Þann 28.12. kl. 23:18 varð skjálfti að stærð 4,4 með upptök syðst á Kolbeinseyjarhrygg, um 20 km norður af Kolbeinsey.
Suðurland
Á Suðurlandsundirlendi var skjálftavirknin nokkuð dreifð, allt
frá Flóanum í vestri og austur undir Heklu. Um 30 skjálftar voru á svæðinu.
Stærsti skjálftinn var 1,4 að stærð, um 6 km suðvestur af Árnesi í Holtum.
Tveir smáskjálftar um 0,8 að stærð áttu upptök við Heklu með um 15 sekunda millibili
þann 25.12. um kl. 23:04. Báðir voru á innan við 1 km dýpi.
Fjórir smáskjálftar voru við Vatnafjöllin, allir minni en 1 stig.
Reykjanesskagi og vestara gosbeltið
Um 20 jarðskjálftar mældust á norðanverðum Reykjaneshryggnum og inn á
Reykjanestána. Flestir þeirra áttu upptök um 4-6 km norðaustur af Eldey.
Stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð um 5 km suðvestur af Eldeyjarboða þann 23.12.
Á Krýsuvíkursvæðinu voru 3 skjálftar, sá stærsti 1,5 að stærð. Við Vífilsfell voru
einnig 3 skjálftar og sá stærsti um 2 stig.
Á Hengilssvæðinu voru 7 jarðskjálftar, sá stærsti 1,6 að stærð með upptök um 3 km suður
af Skeggja í Hengli.
Jarðskjálftahrina um 10-11 km norðnorðvestur af Geysi í Haukadal hófst í byrjun vikunnar og stóð
fram eftir allri vikunni. Í allt mældust rúmlega 220 jarðskjálftar í hrinunni. Stærsti skjálftinn
í hrinunni var 3,1 að stærð þann 25.12. kl. 05:58. Hann fannst vel í Haukadal og við Geysi,einnig
við Laugarvatn, Miðhús og Syðri-Reyki í Biskupstungum.
Brotlausn skjálftans sýnir hægri-handar sniðgengislausn með smá siggengisþætti.
Afstæðar staðsetningar skjálftanna í hrinunni sýna að skjálftarnir eru í 2 grúppum á nær samsíða plönum sem
hafa strik um N26°A og halla um 73°-75° til austurs. Syðri grúppan er á um 2 km dýpi en
sú nyrðri á um 3 km dýpi.
Seinni hluta vikunnar mældust nokkrir smáskjálftar nokkru vestan við upptök hrinunnar.
Norðurland
Sunnudagskvöldið 28.12. mældust nokkrir skjálftar syðst á Kolbeinseyjarhrygg um 10-20 km norður af Kolbeinsey.
Stærsti skjálftinn mældist 4,4 að stærð þann 28.12. kl. 23:18 með upptök um 20 km norður af Kolbeinsey.
Á fjórða tug jarðskjálfta mældist úti fyrir Norðurlandi, á Tjörnesbrotabeltinu. Upptök flestra
eða rúmlega 20 voru inn í Öxarfirði. EInnig voru nokkrir skjálftar austan við Grímsey,á Húsavíkur-Flateyjar
misgenginu og á Tröllaskaga. Stærsti skjálftinn var 1,6 að stærð úti fyrir mynni Eyjafjarðar þann 28.12.
Þrír smáskjálftar voru við Kröflu og Þeistareyki, allir undir 0,5 stigum.
Hálendið
Undir og við Vatnajökul mældust um 480 jarðskjálftar. Flestir skjálftanna áttu upptök í Bárðarbungu eða
rúmlega 380 skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist 5,0 að stærð við norðausturbrún öskjunnar þann 25.12. kl. 22:53.
Tæplega 30 jarðskjálftar voru á stærðarbilinu 4 til 5 og um 60 á bilinu 3 til 4.
Í kvikuganginum voru um 60 jarðskjálftar, allir minni en 2 stig. Við Tungnafellsjökul voru tæplega
30 jarðsjkjálftar, sá stærsti 2,5 að stærð þann 27.12. kl. 18:58.
Tveir skjálftar voru við Eystri-Skaftárketilinn, sá stærri 1,4 að stærð þann 23.12. kl. 09:08.
Við Herðubreið og Herðubreiðartöglin mældust tæplega 60 jarðskjálftar. Sá stærsti mældist 2,5 stig um
7 km norðaustur af Töglunum. Tveir skjálftar voru við Öskju, sá stærri 0,9 að stærð.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdalsjökli mældust 25 jarðskjálftar. Flestir þeirra eða um 20 áttu upptök í Kötluöskjunni,
aðallega sunnarlega í öskjunni og við Austmannsbungu. Fjórir skjálftar voru undir vesturhluta jökulsins
og 1 við Hafursárjökul. Stærsti skjálftinn mældist 1,8 að stærð sunnarlega í öskjunni þann 24.12.
Tveir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli á um 1 til 3 km dýpi, sá stærri var 0,7 að stærð.
Fjórir skjálftar voru á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 1,9 að stærð þann 28.12.
Gunnar B. Guðmundsson