Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Reykjanesskagi
Helsti atburður á svæðinu var skjálftahrina undir norðanverðum Sveifluhálsi við Kleifarvatn 29. - 30. maí. Þann 29. kl. 11:59 varð skjálfti af stærð 3,1 og einn af stærð 4,0 rúmri klukkustund síðar eða kl. 13:10. Tilkynningar bárust um að skjálftanna, einkum stærra skjálftans, hefði orðið vart víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Skjálftarnir voru á 3 - 4 kílómetra dýpi og sýna brotlausnir aðallega siggengishreyfingar þar sem brotflöturinn liggur samsíða Sveifluhálsinum. Alls mældust um 170 skjálftar í hrinunni.
Aðrir skjálftar á Reykjanesskaga voru fremur fáir og staðsettir á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum.
Um 20 skjálftar mældust á norðanverðum Reykjaneshrygg, stærstu rúmlega tvö stig.
Suðurland
Tæplega 100 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Um 30 voru staðsettir á niðurdælingasvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Allir skjálftar voru um og innan við tvö stig að stærð.
Á Suðurlandsundirlendinu mældust um 70 skjálftar á þekktum sprungum milli Þrengsla og Selsunds, en enginn þeirra náði tveimur stigum að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust norðaustan við Heklu.
Djúpur skjálfti, á um 20 kílómetra dýpi, mældist 10. maí með upptök vestan Heimakletts í Vestmannaeyjum. Hann var 1,3 stig.
Aðfaranótt 4. maí sáust merki á jarðskjálftamælum í grennd við Dyrhólaey, en fregnir bárust síðar um að skriða hefði fallið úr eynni.
Mýrdalsjökull
Hátt í 200 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af um 120 innan Kötluöskju og um 50 undir vestanverðum jöklinum. Djúpir skjálftar í austanverðum katlinum, sem eru líklega tengdir kvikuhreyfingum, mælast af og til. Fyrir utan staka djúpa skjálfta mældust tvær hrinur með um tug skjálfta hvor dagana 1. og 20. maí. Stærstu skjálftar undir Mýrdalsjökli voru um tvö stig.
Á Torfajökulssvæðinu mældust um 35 skjálftar. Þeir voru nokkuð dreifðir um svæðið og voru allir um og minni en 1,5 stig.
Nokkrir smáskjálftar mældust undir sunnanverðum Eyjafjallajökli.
Hálendi
Enn er mikil skjálftavirkni i ganginum undir Dyngjujökli og við Bárðarbungu í kjölfar umbrotanna síðasta haust og vetur. Um 700 skjálftar mældust í ganginum í maí, stæsti 2,5 stig. Við öskju Bárðarbungu mældust hátt í 200 skjálftar, stærstu um tvö stig. Suðaustan Bárðarbungu, þar sem kvikugangurinn beygir til norðausturs, mælast af og til djúpir skjálftar. Þann 1. maí varð þar hrina 25 slíkra skjálfta, um og innan við 1,5 stig.
Lítið Grímsvatnahlaup hófst í Gígjukvísl 6. maí og náði hámarki 13. maí. Aukinn hátíðniórói sem tengdist hlaupinu mældist á jarðskjálftastöðvum á Grímsfjalli og jökulskerinu Vetti í Skeiðarárjökli.
Um 20 skjálftar mældust með upptök undir Lokahrygg. Stærsti varð 4. maí, 3,2 stig. Nokkur smáskjálftavirkni var undir Grímsvötnum, við Kverkfjöll og norðan Skeiðarárjökuls. Skjálftar dreifðust milli Skeiðarárjökuls og Öræfajökuls, undir Öræfajökli og nokkrir undir Síðujökli. Þeir voru allir um og innan við einn að stærð.
Fáir skjálftar mældust við Tungnafellsjökul. Skjálftavirkni hefur verið viðvarandi á svæðinu síðan umbrotin hófust í Bárðarbungu um miðjan ágúst 2014, en fer dvínandi.
Á Dyngjufjallasvæðinu norðan Vatnajökuls mældust yfir 200 skjálftar. Helsti atburður á svæðinu var lítil hrina 2. maí í Öskju, austan Öskjuvatns. Hrinan hófst með skjálfta af stærð 2,2 og fylgdu 30 smáskjálftar í kjölfarið. Aðrir skjálftar á svæðinu voru allir litlir og nokkuð dreifðir.
Í vestara gosbeltinu mældust fáir skjálftar og dreifðir.
Norðurland Eftirlitsfólk í maí: Martin Hensch, Sigþrúður Ármannsdóttir, Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, Gunnar B. Guðmundsson og Benedikt G. Ófeigsson
Um 180 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Stærsti skjálftinn varð úti fyrir mynni Eyjafjarðar, á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Hann varð 22. maí og var 2,7 stig að stærð. Um 50 skjálftar mældust meðfram misgenginu og 15 í viðbót í Eyjafjarðarál. Yfir 100 skjálftar urðu á Grímseyjarbeltinu og í Öxarfirði, allir minni en tvö stig.
Nokkur smáskjálftavirkni var á Kröflusvæðinu og við Þeistareyki. Yfir 50 smáskjálftar mældust um og innan við 1,5 stig.