Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150105 - 20150111, vika 02

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 450 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Flestir, rúmlega 300, áttu upptök undir Bárðarbungu. Stærsti skjálfti vikunnar (og sá eini sem var yfir fimm stigum) varð við norðaustanverða Bárðarbunguöskjuna á fimmtudeginum, 8. janúar klukkan 18:47, 5,1 stig. Engar hrinur urðu annars staðar á landinu.

Suðurland

Um tugur skjálfta mældist í Ölfusi og fáeinir á Hengilssvæðinu, allir um og innan við eitt stig. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi og einn við Vatnafjöll.

Reykjanesskagi

Rólegt var á Reykjanesskaga og -hrygg.

Norðurland

Á þriðja tug skjáflta mældist úti fyrir Norðurlandi, um helmingur í Öxarfirði. Stærsti skjálftinn varð um 30 kílómetra norðvestur af Kópaskeri, þriðjudaginn 6. janúar, 2,3 að stærð.

Hálendið

Rúmlega 300 skjálftar voru staðsettir við Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn varð, við norðaustanverðan öskjubarminn, fimmtudaginn 8. janúar klukkan 18:47 og var hann 5,1 að stærð. Yfir 20 skjálftar voru á stærðarbilinu 4 til 5 stig. Á fjórða tug skjálfta mældist í kvikuganginum. Mesta virknin var í honum norðanverðum. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig að stærð. Fjórir skjálftar voru staðsettir við Skaftárkatla. Stærsti skjálftinn, 2,2 að stærð, varð við eystri ketilinn fimmtudaginn 8. janúar klukkan 06:21. Upp úr hádegi sama dag varð annar skjálfti 1,6 að stærð nær vestari katlinum. Tveir skjálftar urðu undir austurbarmi Öskju, báðir innan við tvö stig. Hátt í 30 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, allir um og innan við eitt stig.
Nokkrir skjálftar mældust sunnan Langjökuls. Stærsti varð í upphafi viku, skammt austan Skjaldbreiðar, 2,2 að stærð. Einn skjálfti varð á laugardag við Þórisjökul rétt innan við tvö stig að stærð.

Mýrdalsjökull

Einungis tveir smáskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli. Báðir urðu um helgina í sunnanverðri Kötluöskjunni.

Sigþrúður Ármannsdóttir