Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150202 - 20150208, vika 06

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust í vikunni. Um 225 voru í Bárðarbungu, þar sem átta skjálftar voru yfir fjögur stig, stærsti 4,9. Skjálftaröð varð í Öxarfirði með 70 skjálfta. Hún hófst með skjálfta af stærð 3,3 að morgni 2. febrúar.

Suðurland

Helsta skjálftavirkni á Suðurlandsundirlendinu var á Hestvatnssprungu. Þar mældust 10 skjálftar, stærsti 1,5 stig. Austast á svæðinu mældist einn skjálfti undir Vatnafjöllum, 1,1 stig.
Alls mældust tólf skjálftar á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Allir voru innan við einn að stærð. Flestir áttu upptök sunnan Hrómundartinds. Nokkrir mældust á suðurhluta Krosssprungu.

Reykjanesskagi

Fyrstu tvo daga vikunnar mældust fjórir skjálftar við Grindaskörð sunnan Hafnarfjarðar, en þeir eru eftirskjálftar 3,2 skjálfta sem varð þar 29. janúar.
Tveir smáskjálftar mældust við Krýsuvík og einn við Fagradalsfjall, allir minni en 1,5 stig.
Úti á Reykjaneshrygg mældist einn skjálfti, 2,3 að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust á dreif við Reykjanestá, allir um eitt stig að stærð.

Norðurland

Nálægt 100 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu norðan við land. Flestir eða yfir 70 urðu í skjálftaröð í Öxarfirði. Hún hófst að morgni 2. febrúar með skjálfta af stærð 3,3. Flestir skjálftarnir mældust fyrsta klukkutímann og 50 fyrsta daginn.
Nokkur skjálftavirkni var einnig við Grímsey. Þar mældust 16 skjálftar, stærsti 2,2 stig. Önnur virkni í brotabeltinu var lítil og dreifð.
Á Þeistareykjasvæðinu mældust sex smáskjálftar, allir innan við eitt stig að stærð. Á Kröflusvæðinu mældust þrír skjálftar, um og minni en 0,5 stig.

Hálendið

Alls mældust 224 jarðskjálftar í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn varð 6. febrúar kl. 03:48, 4,9 stig. Sjö skjálftar voru af stærð milli 4,0 og 4,6 stig. Allir þessi skjálftar voru við norðurbrún öskjunnar nema 4,6 skjálftinn, sem var við suðurbrúnina. Alls 25 skjálftar voru svo milli þrjú og fjögur stig að stærð.
Í kvikuganginum mældust um 70 skjálftar, stærsti tvö stig. Aðrir skjálftar undir Vatnajökli voru fáir og dreifðir.
Við Tungnafellsjökul mældust níu skjálftar. Allir nema einn áttu upptök við norðurenda jökulsins. Stærð skjálftanna var innan við 1,5 stig.
Á Dyngjufjallasvæðinu mældust um 50 skjálftar. Flestir áttu upptök sunnan Herðubreiðar, við Herðubreiðartögl. Þar mældist á fjórða tug skjálfta, allir minni en 1,5 stig. Austan Öskju mældist um tugur skjálfta, stærsti 1,6 stig, og nokkrir smáskjálftar mældust sunnan Vikrafells.
Aðeins þrír skjálftar mældust í vestara gosbeltinu. Tveir áttu upptök undir Geitlandsjökli, 1,0 og 1,3 stig að stærð, og einn varð norðan Sandvatns, 1,0 stig.

Mýrdalsjökull

Tíu skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Sex áttu upptök innan Kötluöskju, stærsti um 1,5 stig í norðanverðri öskjunni. Engir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
9. febrúar 2015