Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150309 - 20150315, vika 11

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni mældust um 360 jarðskjálftar. Enn dregur úr skjálftavirkni við Bárðarbungu og í kvikuganginum, en þó urðu flestir skjálftar vikunnar á því svæði. Í ganginum mældust um 140 skjálftar, allir minni en tvö stig, og hátt í 50 skjálftar við öskju Bárðarbungu, stærsti 3,1 stig.

Suðurland

Aðeins 12 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, helmingur staðsettur undir Húsmúla við Hellisheiðarvirkjun. Aðrir dreifðust um svæðið. Þeir voru allir minni en eitt stig.
Það mældust 10 skjálftar á þekktum sprungum Suðurlandsundirlendisins, um og minni en eitt stig að stærð.
Tveir smáskjálftar mældust með upptök við Heklu. Annar var suður af fjallinu, 0,3 stig, en hinn norðvestan þess, 0,9 stig.

Reykjanesskagi

Fáir skjálftar mældust á Reykjanesskaga. Einn var staðsettur við Bláfjöll, en hinir á Krýsuvíkursvæðinu. Þeir voru um og innan við eitt stig.
Tveir skjálftar mældust út á Reykjaneshrygg við Geirfugladrang. Þeir voru um þrjú stig að stærð.

Norðurland

Um 60 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Um þriðjungur varð í Öxarfirði, flestir 9. mars. Stærsti skjálftinn var 1,5 stig. Á Grímseyjarbeltinu mældust 13 skjálftar, allir minni en tvö stig. Hátt í 20 skjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu. Flestir urðu úti fyrir mynni Eyjafjarðar, en þar voru upptök stærsta skjálftans 2,7 stig. Þrír skjálftar mældust norður á Kolbeinseyjarhrygg.
Smáskjálftar mældust á Þeistareykjasvæðinu og við Kröflu, allir minni en eitt stig.

Hálendið

Enn dregur úr skjálftavirkni við Bárðarbungu og í kvikuganginum. Vonskuveður hafði neikvæð áhrif á næmni kerfisins suma daga vikunnar, sem skýrir að einhverju leyti fækkun skjálfta. Aðeins á fimmta tug skjálfta mældist við Bárðarbungu, en 80 vikuna á undan. Stærsti skjálftinn var 3,1 stig, en ekki hefur mælst þar skjálfti yfir þrjú stig síðan 21. febrúar. Fjöldi skjálfta sem mældist með upptök í ganginum var um 140 (250 í fyrri viku). Þeir voru allir minni en tvö stig.
Yfir 40 skjálftar mældust við norðurenda Herðubreiðartagla, flestir 9. mars. Þeir voru allir minni en 1,5 stig. Austan Herðubreiðartagla og sunnan Herðubreiðarlinda mældust sjö skjálftar, stærstu 1,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust við Öskju, allir minni en eitt stig. Tveir skjálftar urðu norður af Upptyppingum, báðir 0,2 stig.
Fáir skjálftar mældust í vestara gosbeltinu. Tveir mældust suðaustan Jarlhettna, tæplega tvö stig að stærð. Tveir urðu austan Skjaldbreiðar, báðir 0,6 stig, og tveir við vestari Hagafellsjökul í Langjökli, um eitt stig að stærð.

Mýrdalsjökull

Aðeins einn skjálfti mældist undir Mýrdalsjökli. Upptök hans voru í norðanverðri Kötluöskju og stærð 0,6 stig. Einn skjálfti mældist vestast á Torfajökulssvæðinu. Hann var 1,4 stig.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
17. mars 2015