Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150504 - 20150510, vika 19

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 440 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Mesta virknin var undir Vatnajökli, líkt og undanfarnar vikur og mánuði. Engar stærri hrinur urðu í vikunni. Stærsti skjálftinn varð á Lokahrygg að morgni mánudagsins 4. maí, 3,2 að stærð. Lítið hlaup úr Grímsvötnum hófst undir helgi.

Suðurland

Um tugur smáskjálfta mældust í Ölfusi og á Hengilssvæðinu og annað eins á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Þann 10. maí klukkan 07:33 varð djúpur jarðskjálfti um 3 kílómetra vestur af Heimakletti í Vestmannaeyjum. Hann var um eitt stig að stærð. þann 4. maí bárust fregnir af því að skriða hefði fallið úr Dyrhólaey. Líklegt er að sá atburður hafi orðið aðfaranótt 4. maí en þá nótt, klukkan 03:38, sáust merki á jarðskjálftamælum í nágrenninu um smáskjálfta á þessum slóðum.

Reykjanesskagi

Um tugur skjálfta mældist í nágrenni Krýsuvíkur, stærsti 1,5 . Einn smáskjálfti mældist við Hagafell, skammt norður af Grindavík og fjórir við norðanvert Hlíðarvatn í Selvogi. Nokkrir skjálftar mældust undir Bláfjöllum, stærsti rúmt stig. Nokkrir skjálftar mældust skammt suðvestur af Geirfugladrangi síðari hluta vikunnar, allir um og innan við tvö stig.

Norðurland

Um 40 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Helmingurinn varð í Öxarfirði og Grímseyjarbeltinu, tugur á Skjálfanda og annar eins fjöldi í Eyjafjarðarál. Stakur smáskjálfti varð þann 6. maí klukkan 04.11:56 við Bakka norðan Húsavíkur. Stærsti skjálftinn á Norðurlandi þessa viku var í Eyjafjarðarál, 2 að stærð. Nokkrir smáskjálftar urðu á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Um 30 skjálftar mældust við Bárðarbungu og er það svipaður fjöldi og mældist vikuna á undan. Stærsti skjálftinn varð þann 5. maí klukkan 11:55, 1,6 að stærð. Um 150 skjálftar mældust í kvikuganginum undir norðanverðum Dyngjujökli , lítið eitt færri en í síðustu viku. Stærsti skjálftinn varð 7. maí klukkan 13:38, 2,5 að stærð.

Tveir smáskjálftar mældust við Grímsfjall, annar 8. og hinn 10. maí. og einn við Vött að morgni 7. maí Nokkrir smáskjálftar mældust einnig undir ofanverðum Skeiðarárjökli föstudaginn 8. maí. Um miðja viku fór órói á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli hægt vaxandi. Vatnshæð í Gígjukvísl á Skeiðarársandi jókst og aukinnar rafleiðni varð vart. Um helgina (8.-9. maí) var orðið ljóst að lítið hlaup var hafið frá Grímsvötnum og stendur það enn þegar þetta er skrifað.
Að morgni 4. maí, klukkan 08:28:39, varð jarðskjálfti af stærð 3,2 á Lokahrygg um 3 kílómetrum vestan við vestari Skaftárketilinn og var það jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Tveir skjálftar um og innan við eitt stig urðu á svipuðum slóðum síðar í vikunni. Nokkrir skjálftar mældust í nágrenni vestari Skaftárketilsins og voru þeir sömuleiðis um og innan við eitt stig. Um tugur smáskjálfta mældust samtals við Morsárjökul, Skaftafellsjökul og Svínafellsjökul.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 60 jarðskjálftar, þar af um 40 við Herðubreið og Herðubreiðartögl og rúmlega tugur við austurbarm Öskju. Allir skjálftarnir voru um og innan við einn að stærð.
Í vestara gosbeltinu mældust þrír smáskjálftar undir Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli og tveir, með þriggja mínútna millibili, við Sandfell, suður af Eystri Hagafellsjökli.

Mýrdalsjökull

Tæplega 50 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Rúmur tugur við Goðabungu í vestanverðum jöklinum og hátt í 30 innan Kötluöskjunnar. Stærsti skjálftinn var við austurbrún Kötluöskjunnar 1,5 að stærð. Einn smáskjálfti var staðsettur í sunnanverðum Eyjafjallajökli. Nokkrir skjálftar urðu á Torfajökulssvæðinu, stærsti rúmt stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir