Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150629 - 20150705, vika 27

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 700 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Skjálftahrina varð á Reykjaneshrygg og þar varð stærsti skjálftinn sem mældist í vikunni 5,0 að stærð. Tiltölulega rólegt var á öðrum svæðum.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi mældust samanlagt um 10 smáskjálftar. Nokkrir skjálftar mældust aðfaranótt 3. júlí um 13 kílómetra suðaustur af Árnesi, stærsti 2,4 að stærð. Fjórir skjálftar urðu um helgina um 4 kílómetra suðvestur af Vatnajöllum, sá stærsti 2,3 að stærð. Dreifð smáskjálftavirkni var á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Stakur skjálfti, 2,3 að stærð, varð 29. júní kl. 12:50 um tvo kílómetra norðvestur af Surtsey.

Reykjanesskagi

Tugur skjálfta mældist á Reykjanesskaganum, þar af um helmingur á Krýsuvíkursvæðinu. Hátt í 30 skjálftar mældust við Vífilsfell, austast á Reykjanesskaganum, í nokkrum litlum hrinum. Stærsti skjálftinn varð 1. júlí klukkan 20:33, 1,7 að stærð.

Um klukkan 21 þriðjudagskvöldið 30. júní hófst jarðskjálftahrina við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg. Hrinan var snörpust fyrstu klukkutímana og um miðnætti höfðu hátt í 100 skjálftar mælst, stærsti um fjögur stig. Klukkan 02:25 þann 1. júlí varð skjálfti 5,0 að stærð og fannst hann víða á Reykjanesskaga, á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi og einnig barst tilkynning frá skipi, sem statt var um 10 km frá upptökum skjálftans. Síðdegis sama dag fór heldur að draga úr virkninni, en skjálftar mældust á þessum stað það sem eftir lifði vikunnar. Á fimmta hundrað skjálfta hafa verið staðsettir við Geirfuglasker í vikunni, en nokkuð er enn óunnið úr hrinunni. Nokkrir smáskjálftar mældust við Reykjanestá.

Norðurland

Á þriðja tug skjálfta mældist úti fyrir Norðulandi, flestir undir Skjálfanda og í Öxarfirði. Stærsti skjálftinn varð úti fyrir mynni Eyjafjarðar, 2,1 að stærð. Fáeinir skjálftar mældust við Þeistareyki, stærsti 2,1 að stærð og nokkrir smáskjálftar voru staðsettir við Kröflu.

Hálendið

Tæplega 30 skjálftar mældust við Bárðarbungu, allir um og innan við tvö stig. Um 50 skjálftar voru staðsettir í ganginum undir Dyngjujökli stærsti 1,5 að stærð. Stakur skjálfti mældist við Eystri Skaftárketilinn 4. júlí. Hann var 2,4 að stærð og á litlu dýpi. Nokkrir smáskjálftar mældust við Grímsvötn og suður af Pálsfjalli undir sunnanverðum Vatnajökli. Auk þess mældust nokkrir skjálftar í suðaustanverðum Vatnajökli.

Um tugur smáskjálfta mældist við austanvert Öskjuvatn og annað eins við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Sunnudaginn 5. júlí mældist um tugur smáskjálfta með upptök milli Uxahryggja og Oksins í Borgarfirði en þar hefur verið virkni af og til undanfarnar vikur. Stakur skjálfti mældist þann 1. júlí um 13 kílómetra norður af Eiríksjökli. Hann var 1,4 að stærð.

Mýrdalsjökull

Lítil virkni var undir Mýrdalsjökli í vikunni. Sex smáskjálftar voru staðsettir í vesturjöklinum og þrír innan Kötluöskjunnar. Einn skjálfti var staðsettur undir sunnanverðum Eyjafjallajökli, 1,8 að stærð. Innan við tugur skjálfta var staðsettur á Torfajökulssvæðinu, allir minni en tvö stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir, Þórunn Skaftadóttir, Bryndís Gísladóttir, Hildur Friðriksdóttir og Salóme Bernharðsdóttir.