Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20151005 - 20151011, vika 41

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 450 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Nokkrir skjálftar voru yfir þremur stigum, allir á Reykjaneshrygg. Skjálftavirknin frá því í síðustu viku, suður af Skarðsfjalli í Landsveit, hélt áfram. Skjálftahrina varð norðan Herðubreiðar og smáhrina í Kelduhverfi.

Suðurland

Um tugur skjálfta mældist um miðja viku við Skeggja á Hengilssvæðinu, stærsti 2,1 að stærð. Flestir urðu seinni part 7. október en tveir degi síðar. Hugsanlega tengjast þessir skjálftar niðurdælingu affallsvatns á vegum Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu. Um miðjan dag þann 8. október mældust nokkrir smáskjálftar nærri Ölkelduhálsi á Hengilssvæðinu. Tæpur tugur skjálfta mældist í Þrengslum og Hjallahverfi. Framhald varð á hrinunni sem hófst í síðustu viku um 6 kílómetra suður af Skarðsfjalli í Landsveit. Mesta virknin var mánudaginn 5. október en þann dag mældust rúmlega 30 skjálftar á þessum slóðum. Í vikulok höfðu mælst á sjöunda tug skjálfta, stærsti tvö stig aðrir um og innan við eitt stig. Tæplega tugur smáskjálfta urðu á þekktum sprungum víðs vegar á Suðurlandsundirlendinu. Þann 10. október klukkan 13:14 var stakur grunnur smáskjálfti staðsettur við suðvestanverða Heklu.

Reykjanesskagi

Fremur lítil virkni var á Reykjanesskaga í vikunni. Fáeinir smáskjálftar urðu við sunnanvert Kleifarvatn og nokkrir undir Brennisteinsfjöllum. Á annan tug skjálfta mældist á Reykjaneshrygg. Nokkrir voru staðsettir skammt suðvestur af Reykjanestá. Að kvöldi 11. október mældust sex skjálftar á 10 mínútum, skammt suðaustur af Geirfuglaskeri á Reykjaneshrygg, stærsti 2,4 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust einnig sunnar á Reykjaneshrygg, stærsti 3,4 að stærð.

Norðurland

Rúmlega 40 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi og er það svipaður fjöldi og mældist vikuna á undan. Mesta virknin var í Grímseyjarbeltinu frá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Stærsti skjálftinn varð 11 kílómetrum austan Grímseyjar 5. október klukkan 03:46, 2,3 að stærð. Að kvöldi 10. október hófst smáskjálftavirkni sem stóð fram eftir nóttu í Kelduhverfi. Á annan tug skjálfta mældist, flestir á um 7 kílómetra dýpi. Nokkrir smáskjálftar urðu á svæðunum við Mývatn og Þeistareyki.

Hálendið

Um 80 jarðskjálftar mældust undir og við Vatnajökul, svipaður fjöldi og vikuna á undan. Rúmlega 20 voru við Bárðarbunguöskjuna og tæplega 20 í ganginum undir Dyngjujökli. Stærsti skjálftinn við Bárðarbungu varð við norðanverða öskjuna 7. október klukkan 00:36, 2,5 að stærð. Þrír skjálftar mældust í nágrenni Skaftárkatla og tveir við Hamarinn, allir innan við tvö stig. Tveir litlir skjálftar mældust við Grímsvötn. Fáeinir smáskjálftar mældust undir Öræfajökli og nokkrir undir Síðujökli. Nokkrir skjálftar mældust norður af Tungnafellsjökli, allir innan við tvö stig. Um 130 jarðskjálftar urðu á Dyngjufjallasvæðinu norðan Vatnajökuls. Skjálftavirkni var viðvarandi alla vikuna norðan Herðubreiðar og aðfaranótt föstudagsins 9. október hófst þar skjálftahrina sem stóð með hléum út vikuna. Í vikulokin höfðu um 80 skjálftar verið staðsettir á þeim slóðum. Stærsti skjálftinn varð 11. október klukkan 12:42, 2,4 að stærð. Um 30 skjálftar mældust suður af Herðubreið og við Herðubreiðartögl, allir um og innan við eitt stig. Nokkrir smáskjálftar mældust norðan Upptyppinga og við Öskju. Rólegt var í vestara gosbeltinu. Tveir skjálftar mældust á mánudeginum 5. október um 12 kílómetrum norðvestur af Oki í Borgarfirði en þar var nokkur skjálftavirkni í liðinni viku. Báðir voru rúmt stig.

Mýrdalsjökull

Um 30 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, heldur fleiri en vikuna á undan. Rúmlega helmingur varð innan Kötluöskjunnar, einkum í henni austanverðri. Stærstu skjálftarnir voru á stærðarbilinu 1,4 til 2,3 og voru þeir staðsettir í austanverðri öskjunni, utan einn sem varð skammt austan við sigketil 3 í henni vestanverðri. Um tugur smáskjálfta var staðsettur á Goðabungusvæðinu í vestanverðum jöklinum og fáeinir við Hafursárjökul í sunnanverðum Mýrdalsjökli. Um 20 skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, allir um og innan við eitt stig.

Sigþrúður Ármannsdóttir