Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20151123 - 20151129, vika 48

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni voru staðsettir tæplega 300 jarðskjálftar. Þrír stærstu skjálftarnir mældust um 2,4 stig og áttu þeir upptök í Skjálfandadjúpi, norður af Langjökli og við Krísuvík. Í og við Bárðarbunguöskjuna mældust um 40 skjálftar og ganginum við norðanverðan Dyngjujökul voru 35 skjálftar.

Suðurland

Fáeinir jarðskjálftar voru í Holtum og Landsveit og mældist stærsti skjálftinn 1,7 stig með upptök í Landsveit.

Um 20 jarðskjálftar voru á Hengilssvæðinu. Upptök þeirra voru við Húsmúlann, Gráuhnjúka og við Hrómundartind. Stærsti skjálftinn mældist 1,8 að stærð við Hrómundartind. Allir aðrir skjálftar á svæinu voru undir 1 að stærð. Einn skjálfti af stærð 0,7 átti upptök um 6,5 km norðaustur af Heklu þann 28.11. kl. 20:34.

Reykjanesskagi

Á norðanverðum Reykjaneshryggnum mældust 5 jarðskjálftar. Sá stærsti var um 2 að stærð og átti hann upptök um 2 km norður af Eldey.

Tuttugu skjálftar mældust á Reykjanesskaganum. Upptök flestra skjálftanna voru við Krísuvík og þar mældist stærsti skjálftinn á skaganum sem var 2,4 að stærð. Skjálftar voru einnig við Reykjanestá, Fagradalsfjall og Vífilsfell.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust 24 skjálftar. Upptök flestra skjálftanna voru á Grímseyjarbeltinu, frá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Stærsti skjálftinn mældist 2,4 stig með upptök í austanverðu Skjálfandadjúpi, um 30 km austsuðaustur af Grímsey. Einnig voru fáeinir skjálftar í Eyjafjarðarál, Grímseyjarsundi og við Gjögur. Tveir skjálftar voru við Húsavík, báðir um 0,5 að stærð.

Hálendið

Tæplega 90 skjálftar voru undir og við Vatnajökul. Í Bárðarbunguöskjunni mældust rúmlega 40 skjálftar og í ganginum við norðanverðan Dyngjujökul voru 35 skjálftar. Stærsti skjálftinn undir og við Bárðarbunguöskjuna var 1,8 að stærð þann 29.11. kl. 04:24 og sá stærsti í ganginum var 1,6 að stærð þann 26.11. kl. 21:28. Einn skjálfti með upptök um 16 km suðaustur af Bárðarbungu var á um 17 km dýpi þann 25.11. kl. 23:29 og var hann um 1,2 að stærð. Einn skjálfti tæplega 1 að stærð var við Trölladyngja á um 23 km dýpi þann 25:11 kl. 09:26.
Einn skjálfti var á Lokahrygg um 6 km austur af Hamrinum. Tveir smáskjálftar við Vött og í Skeiðarárjökli. Þrir skjálftar voru við Öræfajökul, allir undir 0,5 að stærð.

Við Öskju og Herðubreið voru rúmlega 50 jarðskjálftar. Þeir voru allir minni en 1,3 að stærð.
Stakir smáskjálftar voru við Kollóttudyngju og Herðubreiðarfjöll.

Þrír skjálftar voru í Geitlandsjökli við Langjökul, sá stærsti 1,9 að stærð. Tveir skjálftari voru norður af Langjökli. Sá stærri var af stærð 2,4 þann 26.11. kl. 21:10.

Mýrdalsjökull

Undir og við Mýrdalsjökul mældust um 30 jarðskjálftar. Við vestanverðan jökulinn voru um 10 skjálftar og sá stærsti mældist 2,3 stig þann 28.11. kl. 01:21. Í og við Kötluöskjuna voru 17 skjálftar, sá stærsti 1,3 af stærð þann 29.11. kl. 16:29. Við austanverða öskjuna mældust 3 skjálftar á um 17 til 26 km dýpi. Þrír smáskjálftar voru við Hafursárjökul.

Einn smáskjálfti var undir suðvestanverðum toppgíg Eyjafjallajökuls.

Fimm skjálftar voru á Torfajökulssvæðinu. Stærsti skjálftinn mældist 1,4 stig.

Jarðvakt