Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20151130 - 20151206, vika 49

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 200 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Stærsti skjálftinn mældist 3,3 stig þann 1.12. kl. 03:51 með upptök við norðurjaðar Bárðarbunguöskjunnar. Næststærsti skjálftinn var við suðurjaðar öskjunnar og mældist hann 2,8 stig. Í allt voru tæplega 40 skjálftar við Bárðarbunguöskjuna og tæplega 15 í ganginum við Dyngjujökul.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu mældust 7 smáskjálftar, allir minni en 1 að stærð. Upptök þeirra voru aðallega við Hrómundartind og Ölkelduháls.

Tæplega 30 skjálftar voru á Suðurlandsundirlendinu. Stærsti skjálftinn mældist 2,4 stig þann 3.12. kl. 04:45 og átti hann upptök við Hjallahverfið í Ölfusi. Allir aðrir skjálftar voru minni en 1,2 að stærð. Upptök skjálftann dreifðust um Ölfusið, við Hestfjall, Holt og Landsveit.

Reykjanesskagi

Þrír skjálftar, allir minni en 1,7 að stærð áttu upptök stutt utan við Reykjanestána.
Um 10 smáskjálftar voru á Reykjanesskaganum. Sá stærsti var 1,7 að stærð með upptök við Krýsuvík. Upptök annarrar skjálfta voru við Fagradalsfjall, á Krýsvíkursvæðinu, sunnan við Heiðina há og vestan við Geitafell.

Norðurland

Skjálfti af stærð 2,5 var á Kolbeinseyjarhrygg um 30 km norður af Kolbeinsey þann 30.11.

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust um 20 jarðskjálftar. Stærsti skjálftinn var af stæðr 1,6 og átti hann upptök á Flateyjarskaga, um 10 km suður af Flatey. Upptök annarra skjálfta á brotabeltinu voru við Flatey, austur af Grímsey og í Öxarfirði.

Nokkrir smáskjálftar voru við Þeistareyki og Víti.

Hálendið

Undir og við Vatnajökul mældust tæplega 60 skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist 3,3 að stærð þann 1.12. kl. 03:51 með upptök við norðurjaðar Bárðarbunguöskjunnar. Næststærsti skjálftinn var við suðurbrún öskjunnar þann 4.12. og mældist hann 2,8 stig. Í og við Bárðarbunguöskjuna voru tæplega 40 skjálftar og í norðanverðum ganginum við Dyngjujökul voru tæplega 15 skjálftar. Stærstu skjálftarnir í ganginum voru um 1,2 stig. Skjálftar mældust einnig við Hamarinn á Lokahrygg, í Grímsvötnum, við Þórðarhyrnu, Vött og Skeiðarárjökul.
Einn skjálfti af stærð 1,3 mældist þann 6.12. kl. 12:11 á um 23 km dýpi suðvestan við Tungnárjökul.

Við Öskju og Herðubreið mældust á fjórða tug skjálfta. Stærstu skjálftarnir voru um 1,4 að stærð.

Skjálfti af stærð 1,4 varð við Dynk í Þjórsá þann 2.12. kl. 19:24.

Þrír skjálftar voru við Högnhöfða um 11-12 km vestnorðvestur af Geysi í Haukadal. Þeir voru allir um og undir 1 að stærð.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældust 13 jarðskjálftar. Þar af voru 5 undir vesturhlutanum og voru þeir allir minni en 1,1 að stærð. Í og við Kötluöskjuna voru 8 skjálftar og mældist stærsti skjálftinn 2,2 að stærð sem átti upptök norðantil í öskjunni. Tveir skjálftar við austurbrún öskjunnar voru á 18 og 21 km dýpi.

Á Torfajökulssvæðinu mældust 16 skjálftar. Upptök þeirra voru við Torfajökul og mældust stærstu skjálftarnir um 1,3 stig.

Jarðvakt