Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Reykjanesskagi
Tæplega 90 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga. Sá stærsti var 2,1 að stærð við Reykjanestá þann 3. janúar kl. 10:05. Alls voru um 30 skjálftar staðsettir þar í smáhrinu í byrjun mánaðarins. Auk þess var smáskjálftavirkni á þekktum sprungum milli Fagradalsfjalls og Bláfjalla á Reykjanesskanum, en enginn þeirra náði 2 stigum. Einn smáskjálfti átti upptök í Heiðmörk. Fjórir skjálftar minni en 2,5 að stærð voru á Reykjaneshrygg.
Suðurland
Um 40 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, þar af um helmingur á niðurdælingasvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla. Stærsti skjálftinn þar var 2,0 að stærð þann 31. janúar kl. 00:20. Smáskjálftavirkni mældist undir Hrómundartindi á Hengilssvæðinu. Rúmlega 25 jarðskjálftar voru við Ölfus og Þrengsli, allir voru þeir innan við 1,2 stig. Tæplega 90 skjálftar voru staðsettir á Suðurlandi á þekktum jarðskjálftasprungum milli Selfoss og Selsunds og mældist stærsti skjálftinn 2,2 að stærð þann 10. janúar kl. 21:31 með upptök norðvestan við Hellu. Einn smáskjálfti mældist við Heimaey og einn norðan við Surtsey. Auk þess áttu fjórir smáskjálftar upptök við Heklu.
Mýrdalsjökull
Ríflega 40 smáskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, allir innan við 1,5 stig. Um helmingur þeirra var við Goðaland, einn skjálfti var við Hafursárjökul og 17 í Kötluöskjunni. Um tylft skjálfta mældust á Torfajökulsvæðinu, sá stærsti var 2,2 að stærð þann 31. janúar kl. 18:44. Einn smáskjálfti var undir Eyjafjallajökli.
Hálendi
Rúmlega 140 jarðskjálftar áttu upptök í og við Bárðarbunguöskjuna. Stærsti jarðskjálftinn mældist 3,6 að stærð þann 20. janúar kl. 13:05 en alls mældust þar sjö skjálftar yfir 3 að stærð. Tæplega 125 skjálftar voru í kvikuganginum undir Dyngjujökli. Um 10 þeirra voru staðsettir á um 15 til 20 km dýpi, þar sem kvikugangurinn beygir til norðausturs. Tíu skjálftar mældust á Lokahrygg og sá stærsti var 3,2 að stærð þann 10. janúar kl. 08:46. Auk þess voru um 20 smáskjálftar við Grímsvötn og nokkrir undir Síðujökli, við Öræfajökull og við Kverkfjöll. Við Öskju mældust um 75 jarðskjálftar og stærsti skjálftinn þar mældist 2,8 að stærð þann 18. janúar kl. 06:05. Ríflega 140 smáskjálftar urðu í nágrenni Herðubreiðar og Herðubreiðartagla, en enginn þeirra náði yfir 2 stigum. Tæplega 15 skjálftar mældust við Geitlandsjökul í vestanverðum Langjökli, allir voru þeir innan við 2 stig.
Norðurland
Tvær jarðskjálftahrinur voru úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Grímseyjarbelti sem liggur norðurfrá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Önnur hrinan hófst þann 12. janúar í Tjörnesgrunni norðan við Mánareyjar og hin þann 14. janúar í Öxarfirði. Meira en 1400 skjálftar mældust í Öxarfjarðarhrinunni til loka mánaðarins og heldur skjálftavirknin þar áfram. Stærsti skjálftinn þar mældist 3,7 að stærð þann 21. janúar kl. 04:01. Hann fannst við Kópasker, í Þistilfirði og í Reykjahverfi í Norðurþingi. Í skjálftahrinunni norðan við Mánareyjar voru staðsettir um 360 skjálftar og lauk hrinunni þar þann 19. janúar. Stærsti skjálftinn þar var af stærð 3,3 þann 18. janúar kl. 18:58. Þar að auki áttu um 50 smáskjalftar upptök austan og norðaustan við Grímsey. Tveir skjálftar voru á Kolbeinseyjarhrygg. Um 20 skjálftar voru í Eyjafjarðarál og um 30 á Húsavíkur-Flatyejarmisgenginu og var enginn þeirra yfir 2,5 stigum. Tveir smáskjálftar voru á Tröllaskaga, fjórir við Þeistareyki og rúmlega 20 við Kröflu.
Eftirlitsfólk í janúar: Martin Hensch, Gunnar B. Guðmundsson og náttúruvárhópur Veðurstofu Íslands