Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20160314 - 20160320, vika 11

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 370 jarðskjálftar voru staðsettir í 11. viku (14. - 20. mars, 2016). Stærsti skjálfti vikunnar mældist í Bárðarbungu og var hann 3,6 að stærð. Um 20 skjálftar urðu í Mýrdalsjökli og var sá stærsti 2,5 að stærð.

Suðurland

Tæplega 60 skjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni. Einn skjálfti var staðsettur vestan Heimaeyjar, 1,3 að stærð um 3 km vestan við Herjólfsdal. Þá voru staðsettir 26 skjálftar sunnan við Hengilssvæðið, við Skarðsmýrarfjall og í Hveradölum. Stærsti skjálftinn um 2,7 en aðrir voru minni. Í Ölvusi mældust 7 skjálftar, einnig 7 í Árnessýslu og 7 í Rangárvallasýslu, og einn við Heklu-rætur af stærð 0,3. Tveir jarðskjálftar á Torfajökulssvæðinu og þrír skjálftar voru staðsettir á láglendi sunnan Vatnajökuls, einn vestan Kringlu í Langasjó og tveir við árósa Skeiðar- og Skaftafellsár, sá stærri um 1,0 að stærð, hann var 6 km sunnan Freysness.

Reykjanesskagi

Fjórtán jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesi, stærsti skjálftinn mældist um 1,5 að stærð við Fagradalsfjall. Að auki voru þrír skjálftar staðsettir á Reykjaneshrygg og einn á Selvogsbanka. Sá stærsti af stærð 3 mældist langt úti í hafi um 210 km suðvestur af Reykjanestá.

Norðurland

Rúmlega 50 skjálftar voru staðsettir á og úti fyrir Norðurlandi, flestir úti fyrir landinu. Í Öxarfirði voru staðsettir um 22 skjálftar, um 10 norðan Mánáreyja og um fimm við Grímsey. Sömuleiðis fimm í Eyjafjarðaráli og tveir í Skagafjarðardjúpi.

Hálendið

Sex jarðskjálftar voru staðsettir sunnan Herðubreiðartagla, 21 við Herðubreið og Herðubreiðartögl, fjórir í Öskju og 10 í Dyngjufjöllum og fjórir í Ytri-Dyngjufjöllum. 57 skjálftar mældust í og við Bárðarbungu-öskjuna. Sex skjálftar voru þar yfir tveim að stærð og sá stærsti mældist um 3,6 að stærð. Um tíu skjálftar voru staðsettir við Grímsvötn, fjórir í Skeiðarárjökli þar af einn 1,5 að stærð. 15 skjálftar voru staðsettir við Öræfajökul, sá stæsti var um 1,7 að stærð og var hann norðvestan við Öræfajökul í Birkidal sunnan Þorsteinshöfða. 6 smáskjálftar urðu í ganginum undir Dyngjujökli.

Mýrdalsjökull

20 skjálftar voru staðsettir í vikunni í eða við Mýrdalsjökul. Sá stærsti mældist 2,5 og var hann rétt sunnan við miðja Öskjuna. Annar um 2 að stærð mældist suðvestan við Goðabungu.

Jarðvakt