| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20160411 - 20160417, vika 15

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 370 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Fimm skjálftar mældust rétt yfir þrem stigum, tveir á Tjörnesbrotabeltinu, einn í Bárðarbungu og tveir á Reykjaneshrygg. Aðrir skjálftar voru allir undir 2,5 stigum.
Suðurland
Tæpir 20 skjálftar voru mældir á og við Hellisheiði í vikunni, stærsti skjálftinn var um 2,2 að stærð en hinir allir um og undir einu stigi. Allir skjálftarnir voru tiltölulega grunnir. Annars voru um 30 skjálftar á Suðurlandsbrotabeltinu og rúmur tugur smáskjálfta á Torfajökulssvæðinu.
Reykjanesskagi
Um 30 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesi og Reykjaneshrygg. Flestir skjálftanna voru undir tveimur stigum. Um tíu þessara skjálfta voru á svæðinu rétt norður af Grindavík. Skjálfti af stærð 2,2 var við Kleifarvatn 14. apríl, kl 10:03 og hann fannst lítillega í Hafnarfirði.
Norðurland
Tæplega 70 skjálftar mældust á Norðurlandi, um 20 skjálftar mældust norður af Mývatni og þar af voru sjö skjálftar við Bæjarfjall. Allir voru þessi skjálftar minni en 1,5 að stærð. Um 50 skjálftar voru á víð og dreif um Tjörnesbrotabeltið, flestir undir 2 stigum. Megnið af skjálftunum voru þó í þyrpingu um 15 km austur af Grímsey. Flestir þessa atburða voru 11.apríl og stærsti jarðskjálftinn var af stærð 3,2 og annar var af stærð 3,0.
Hálendið
Í bergganginum mældust rúmlega 10 smáskjálftar en við Öskju mældust um 20 skjálftar allir undir einu stigi. Á Herðubreiðar svæðinu voru um 20 skjálftar, allir um og undir einu stigi. 60 atburðir urðu við og í Bárðarbungu, stærstur var 3,4 að stærð, um níu skjálftar voru um tvö stig en restin var um og undir einu stigi. Rúmir 40 skjálftar voru annarstaðar í Vatnajökli, þar af tæpir 30 í suðurjöklunum. Allt voru þetta smáskjálftar.
Það voru þrír smáskjálftar suður af Langjökli allir um og undir einu stigi.
Mýrdalsjökull
Tæpir 30 skjálftar mældust í og við Mýrdalsjökul, allir undir 1,5 stigum. Flestir skjálftanna voru mjög grunnir en einn mældist á 12 km dýpi.
Jarðvakt