Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20160502 - 20160508, vika 18

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 330 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni, heldur færri en í síðustu viku. Þrír skjálftar yfir þremur stigum mældust í Bárðarbungu. Engar skjálftahrinur urðu í vikunni.

Suðurland

Um 20 skjálftar mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði, allir innan við tvö stig. Nokkrir voru staðsettir austar á Hengilssvæðinu og í Þrengslum. Þann 7. maí klukkan 11:04 varð skjálfti af stærð 2,5 um 6 kílómetrum NNV af Hveragerði og fannst hann þar. Stakur skjálfti var staðsettur við Heklu þann 7. maí kl. 04:09, 0,9 að stærð. Á þriðja tug smáskjálfta voru staðsettir víðsvegar á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Tæplega 20 smáskjálftar mældust á Krýsuvíkursvæðinu og um tugur vestar á skaganum.

Norðurland

Um 40 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi, allir innan við tvö stig. Rúmur tugur varð vestur af Kópaskeri og álíka fjöldi í nágrenni Grímseyjar. Stærsti skjálftinn varð úti fyrir mynni Eyjafjarðar þann 3. maí klukkan 01:27 og var hann 1,8 að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust á svæðinu við Þeistareyki. Nokkrar líklegar sprengingar mældust á þekktum sprengistöðum við Eyjafjörð.

Hálendið

Um 90 skjálftar mældust undir Vatnajökli öllum, nokkru færri en vikuna á undan. Hátt í 30 skjálftar urðu við Bárðarbungu þar af þrír yfir þremur stigum, allir í sunnanverðri öskjunni. Stærsti skjálftinn varð 3. maí klukkan 06:23 og var hann 3,3 að stærð. Hinir tveir urðu með mínútumillibili laust fyrir klukkan 20 þann 6. maí, báðir 3,2 að stærð. Um 20 smáskjálftar mældust í bergganginum undir norðanverðum Dyngjujökli. Einnig urðu nokkrir smáskjálftar á Lokahrygg og við Grímsfjall. Rúmlega 20 smáskjálftar mældust í vestanverðum Öræfajökli, sennilega tengdir íshreyfingum.

Um 70 jarðskjálftar mældust á svæðinu norður af Vatnajökli þar af um helmingur við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Hátt í 30 skjálftar urðu við Herðubreið, allir um og innan við eitt stig. Tæplega 20 smáskjálftar urðu við Herðubreiðartögl, flestir frá hádegi og fram eftir kvöldi þann 8. maí. Um tugur skjálfta mældist við austanvert Öskjuvatn, stærsti rúmt stig. Nokkrir smáskjálftar mældust einnig undir Dyngjufjöllum og á Vikursandi. Stakur skjálfti mældist í vestanverðum Langjökli þann 7. maí og var hann 1,1 að stærð.

Mýrdalsjökull

Tæplega 20 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Flestir voru innan og austur af Kötluöskjunni en einnig mældust nokkrir smáskjálftar í vesturhluta jökulsins á svæðinu við Goðabungu. Stærsti skjálftinn í jöklinum varð þann 3. maí klukkan 19:36 upp af Kötlujökli og var hann 2,2 að stærð. Að kvöldi 5. maí og fram eftir degi þess 6. sáust smátikk, á nokkrum stöðvum næst jöklinum. Einungis tókst að staðsetja fáeina af þessum skjálftum og voru þeir í austanverðum jöklinum. Á annan tug skjálfta mældust á Torfajökulssvæðinu, allir um og innan við tvö stig.

Jarðvakt