Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20160516 - 20160522, vika 20

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 355 skjálftar mældust í vikunni. Stærsti skjálftinn varð 20. maí, kl 07:11 í Bárðarbungu. Skjálftinn var af stærð 4,4, í norðaustanverðri brún Bárðarbunguöskjunnar. Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur frá goslokum í febrúar 2015. Um 20 eftirskjálftar komu í kjölfarið, einn þeirra var af stærð 3,3. Næst stærsti skjálftinn í vikunni varð þann 21. maí, á Reykjaneshrygg, af stærð 4,1. Alls urðu um 25 skjálftar yfir 2,0 að stærð í vikunni.

Suðurland

Á Suðurlandi mældust rúmlega 40 jarðskjálftar. Um 25 skjálftar áttu upptök á Hengilssvæðinu, sá stærsti 2,6 að stærð þann 17. maí kl 17:12. Þrír smáskjálftar urðu suður af Heklu. Dagana 16. og 17. maí var sprengt á framkvæmdasvæði við Búrfell og mældust þær báðar á mælum Veðurstofunnar.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesi mældust 22 jarðskjálftar, allir innan við eitt stig að stærð. Helmingurinn mældist við sunnan- og austanvert Kleifarvatn. Á Reykjaneshrygg urðu um 10 skjálftar. Sá stærsti var 4,1 að stærð, þann 21. maí. Hann var rúma 123 km SV af Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg. Aðrir voru í um 20 km fjarlægð frá landi, milli 0,5-2,1 að stærð.

Norðurland

Um 60 jarðskjálftar voru staðsettir á Norðurlandi. Sá stærsti var 2,6 að stærð, þann 19. maí kl 00:27 norður á Kolbeinseyarhrygg. Þar mældust 12 skjálftar, allir yfir 2,0 að stærð. Tæplega 12 skjálftar mældust í Öxarfirði, sá stærsti 1,1 að stærð, 16. maí. Í nágrenni Grimseyjar mældust um 20 skjálftar, sá stærsti 2,2 að stærð, þann 21. maí. Fimm smáskjálftar mældust VNV af Eyjafirði. Þrír skjálftar minni enn 1,7 að stærð urðu við Húsavík og átta smáskjálftar við Þeistareyki, auk þess urðu tveir litlir skjálftar NV af Mývatni.

Hálendið

Rúmlega 150 jarðskjálftar voru staðsettir á hálendinu í vikunni. Sá stærsti 4,4 að stærð í Bárðarbungu. Rúmlega 35 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti 1,8 að stærð í Herðubreið þann 19. maí kl 05:37 Um 14 skjálftar mældust við Öskju, sá stærsti 1,7 að stærð, þann 16. maí kl 14:43. Tveir skjálftar urðu undir suðvestanverðum Langjökli, 1,4 að stærð. Undir Vatnajökli voru rúmlega 100 skjálftar. Við Öræfajökul mældust um 15 skjálftar. Flestir voru í suðvestanverðum jöklinum, allir undir 0,5 að stærð. Um 20 skjálftar urðu við Dyngjujökul, stærsti 1,2 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust á svæðinu milli Bárðarbungu og Grímsfjalls, sá stærsti 2,1 að stærð.

Um 40 jarðskjálftar mældust undir Bárdarbungu. Stærsti skjálftinn varð 20. maí, kl 07:11. Skjálftinn var af stærð 4,4, í norðaustanverðri brún Bárðarbunguöskjunnar. Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur frá goslokum í febrúar 2015. Um 20 eftirskjálftar komu í kjölfar skjálftans, einn þeirra var af stærð 3,3.

Mýrdalsjökull

Það mældust um 18 skjálftar í Mýrdalsjökli. Þeir voru allir undir M1,0 að stærð, flestir við Goðalandsjökul og innan Kötluöskjunnar og fáeinir við Kötlujökul og suðurenda Mýrdalsjökuls. Nokkrir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt