Rúmlega 330 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, en enginn þeirra var stærri en 2,5 að stærð. Tæplega 40 skjálftar urðu undir Mýrdalsjökli, flestir þeirra inni í Kötluöskjunni. Smáhrina var við Húsmúla, þrír smáskjálftar mældust við Heklu. Fremur rólegt var í kringum Bárðarbungu í vikunni.
Reykjanesskagi
Tæplega 25 jarðskjálftar voru staðsettir á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga, flestir í kringum Krýsuvík. Stærsti skjálftinn þar varð þann 27. júní kl. 19:50 og var hann 2,5 að stærð. Auk þess urðu nokkrir skjálftar á Reykjaneshrygg, en enginn þeirra náði 2 stigum.
Suðurland
Smá jarðskjálftahrina varð við Húsmúla þann 28. júní. Alls mældust um 80 skjálftar þar, en enginn þeirra var stærri en 1,5 að stærð. Annars var fremur rólegt, aðeins nokkrir smáskjálftar mældust í Hengli, í Þrengslum og á jarðskjálftasprungum á Suðurlandsundirlendinu. Þrír smáskjálftar urðu við Heklu, sá stærsti var 1,2 að stærð þann 30. júní kl. 11:53.
Mýrdalsjökull
Alls mældust um 40 jarðskjálftar við Mýrdalsjökul, þar af rúmlega 30 inni í Kötluöskjunni. Stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð í austurhluta öskjunnar þann 30. júní kl. 16:24. Um mánaðamótin urðu níu djúpir skjálftar sunnan Austmannsbungu á um 10-20 km dýpi. Auk þess var smávirkni við Goðaland og Hafursárjökul. Um 10 skjálftar áttu upptök á Torfajökulssvæðinu, allir innan við 2 stig.
Hálendið
Fremur rólegt var á Vatnajökulssvæðinu í vikunni. Aðeins mædust um 15 skjálftar við Bárðarbunguöskjuna og rúmlega tylft skjálfta í ganginum undir Dyngjujökli. Allir voru þeir innan við 2 stig. Nokkrir smáskjálftar urðu við Grímsfjall, undir Síðujökli og við Öræfajökul.
Um 20 skjálftar voru staðsettir við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti var 2,4 að stærð þann 28. júní kl. 00:57. Nokkrir smáskjálftar áttu upptök í kringum Öskju og einn milli Hofsjökuls og Blöndulóns.
Norðurland
Venjuleg bakgrunnsvirkni var á Tjörnesbrotabeltinu. Alls mældust rúmlega 50 jarðskjálftar þar, flestir þeirra á Grímseyjarbeltinu. Allir voru þeir innan við 2,5 stig. Lítil virkni var við Þeistareyki og Kröflu.