| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20160725 - 20160731, vika 30

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 300 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, heldur færri en vikuna á undan. Mesta virknin var úti fyrir Norðurlandi. Nokkuð færri skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í þessari viku en fyrri viku. Stærsti skjálfti vikunnar varð á svæðinu norður af Kolbeinsey, 4,0 að stærð.
Suðurland
Á Hengilssvæðinu mældust um 10 smáskjálftar. Við Húsmúla á Hellisheiði mældust 12 smáskjálftar, flestir mánudaginn 25. júlí. Þann 27. júlí kl. 18:03 varð stakur skjálfti skammt norðvestur af Hveragerði. Hann var 2,1 að stærð. Annar minni varð þremur dögum síðar skammt norðaustur af bænum. Rúmlega 20 skjálftar urðu á Suðurlandsundirlendinu, allir um og innan við einn að stærð.
Reykjanesskagi
Tæplega 10 smáskjálftar mældust við Kleifarvatn og fáeinir vestar á skaganum. Einnig mældust nokkrir skjálftar á Reykjaneshrygg, stærsti 2,5 að stærð.
Norðurland
Rúmlega 100 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Þar af um helmingur í skjálftahrinu með upptök rúmlega 10 kílómetra austur og norðaustur af Grímsey. Hrinan hófst með skjálfta af stærð 2,7 þann 25. júlí klukkan 05:08. Um 50 eftirskjálftar mældust en enginn þeirra náði tveimur stigum að stærð. Hrinan stóð yfir með hléum næstu tvo daga. Yfir 20 jarðskjálftar mældust um sjö kílómetrum suðvestan Kópaskers. Stærstu skjálftar voru tæp tvö stig.
Nokkrir litlir skjálftar áttu upptök á Kröflusvæðinu og suðvestur af Ásbyrgi.
Þann 26. júlí kl. 12:49 varð skjálfti, af stærð 4,0, um 20 kílómetra norður af Kolbeinsey. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið.
Hálendið
Á annan tug skjálfta átti upptök við Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn varð við suðvestanverða öskjuna þann 27. júlí klukkan 22:17 og var hann 2,3 að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust í bergganginum undir og framan við norðanverðan Dyngjujökul. Rúmlega 10 smáskjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Mýrdalsjökull
Tæplega 40 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af um 30 innan Kötluöskjunnar. Í vikubyrjun mældist tæpur tugur skjálfta norðarlega í öskjuni. Tveir skjálftar, 3,2 að stærð, urðu á þessum slóðum, þann 26. júlí. Sá fyrri klukkan 03:42 og sá síðari klukkan 03:50. Undir vikulok færðist virknin til suðurs í námunda við sigketil númer 16. Þar mældist rúmur tugur skjálfta allir innan við tvö stig og flestir á litlu dýpi. Nokkrir skjálftar mældust auk þess við austurjaðar öskjunnar og voru þeir sömuleiðis allir innan við tvö stig. Tiltölulega rólegt var á svæðinu við Goðabungu og nokkrir smáskjálftar mældust við Hafursárjökul. Nokkrir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.
Jarðvakt