Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20160801 - 20160807, vika 31

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Ríflega 470 jarðskjálftar voru staðsettir med SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Fimm skjálftar yfir 3,0 að stærð voru staðsettir í Bárðarbungu. Stærsti skjálfti vikunnar mældist 4,0 að stærð og var hann í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni. Skjálfti af stærð 2,9 var norðan við Árnes á Suðurlandi og fansnt hann á svæðinu. Jarðskjálftahrinur voru í Bláfjöllum, austan við Grímsey og norðvestan við Gjögurtá.

Suðurland

Rétt rúmlega 60 skjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni. Sá stærsti af þeim var norðan við Árnes af stærð 2.9 og fannst hann í Eystra-Geldingarholti í Gnúpverjahreppi svo og í Grímsnesi. Rétt undir 20 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, sá stærsti var um 2,1 að stærð. Einn skjálfti af stærð 0,21 mældist rétt suðvestan við Heklu.

Reykjanesskagi

Rúmlega 60 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í vikunni. Sá stærsti var 2,6 að stærð með upptök við Sýrfell við Reykjanes. Skjálftahrina var í Bláfjöllum þann 5. ágúst og um 24 skjálftar voru staðsettir þar, sá stærsti af stærð 2,5. Norðvestan við Grindavík voru um 20 skjálftar, sá stærsti 1,2 að stærð. Þrír skjálftar mældust við Reykjanestá, tveir 1,4 af stærð og einn 1,1 af stærð. Fimm smáskjálftar mældust í Krýsuvík.

Norðurland

Mikil virkni var á Norðurlandi þessa vikuna, en flestir skjálftar mældust síðasta dag vikunnar, þann 7. ágúst 2016. Rétt undir 250 jarðskjálftar voru staðsettir úti fyrir á Norðurlandi, en þá er helst að nefna tvær jarðskjálftahrinur, eina austan við Grímsey og aðra norðvestan við Gjögurtá. 100 skjálftar voru staðsettir austan við Grímsey í vikunni, flestir af þeim í hrinu sem byrjaði 6. ágúst, en þar mældust fjórir skjálftar af stærð 3,0 eða meira, en þeir voru 3,4, 3,2, 3,1 og 3,0 að stærð. Yfir 110 jarðskjálftar voru staðsettir norðvestan við Gjögurtá en þar byrjaði skjálftahrina þann 7. ágúst. Stærsti skjálftinn var 3,7 að stærð þann 7. ágúst kl. 00:35 og fannst hann í Ólafsfirði, í Svarfaðardal og á Siglufirði, en allir hinir skjálftarnir voru 2,3 af stærð eða minni. Sjá einnig afstæðar staðsetningar. Um 50 km vestan við Grímsey mældust tveir skjálftar, 2,2 og 1,6 að stærð. Í Öxnarfirði voru rétt yfir 10 skjálftar, þar sem allir nema tveir voru undir 1,0, en þessir stærri voru 1,6 og 1,5 að stærð. Um fjórir smáskjálftar voru í Kröflu í vikunni, og um sex við Þeistareyki.

Hálendið

Rétt undir 80 jarðskjálftar voru staðsettir á hálendinu. Um það bil 25 skjálftar mældust í Bárðarbunguöskjunni, þar af voru tólf um og yfir 2,0 að stærð og fimm sem voru um og yfir stærðinni 3,0 en þar af var einn af stærð 4,0, tveir voru af stærð 3,5 einn af stærð 3,4 og einn af stærð 3,0. Fimm skjálftar voru staðsettir við Grímsvötn, allir undir einum fyrir utan þann stærsta sem var 1,6 að stærð. Einn skjálfti af stærð 1,7 var staðsettur í Öræfajökli. Um 10 skjálftar voru staðsettir í ganginum við Dyngjujökul, allir undir einum fyrir utan einn sem var af stærð 1,3. Um fimm skjálftar voru staðsettir við Öskju en þar af voru þrír af þeim djúpir, sá stærsti 1,9 að stærð. Rétt undir 10 skjálftar voru við Herðubreið og Herðubreiðarfjöll, en enginn þeirra var yfir 1,0 að stærð. Skjálfti af stærð 1,2 var í Hofsjökli og mældist þann 1. ágúst.

Mýrdalsjökull

Um 40 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af um 6 undir vesturhlutanum og tæplega 30 skjálftar í Kötluöskjunni sjálfri, og stærstu voru 2,6 og 2,0 að stærð. Við Torfajökul mældust um 5 skjálftar, en enginn þeirra var stærri en 1,0.

Jarðvakt