| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20160829 - 20160904, vika 35

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Tæplega 600 jarðskjálftar voru staðsettir med SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Skjálftahrina hófst í Mýdalsjökli þann 29. ágúst og mældust tveir skjálftar um 4,5 að stærð í norðurhluta Kötluöskjunnar. Þeir eru stærstu skjálftar sem mælst hafa í Kötlu frá árinu 1977. Samdægurs mældist skjálfti af stærð 3,1 um 4 km norðan við Grindavík sem fannst í bænum sem og í Hafnarfirði. 30. ágúst varð skjálfti í Bárðarbungu af stærð 3,8. Annar markverður atburður varð 1. september en vegfarendur í Landmannalaugum urðu varir við skjálfta sem mældist rúmlega 1,7 að stærð við Brennisteinsöldu.
Suðurland
Rúmlega 60 smáskjálftar voru staðsettir á suðurlandi í vikunni. 13 skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu. Stærsti skjálftinn þar, rúmlega 1.7 að stærð, mældist 1. september við Brennisteinsöldu sem er um 2,2 km VSV af Landmannalaugum, skjálftinn fannst vel í Landmannalaugum. Á suðurlandsundirlendinu mældust tæplega 25 skjálftar allflestir undir 1 að stærð, þar af var einn smáskjálfti í Heklu um 0.6 að stærð. Stærsti skjálftinn á undirlendinu mældist í Flóanum tæplega 1.4 að stærð. 21 skjálfti var staðsettur við Hengilssvæðið 6 vestan við Skarðsmýrarfjall, 1 við Fremstadal en flestir við Ölkelduháls þar með talinn einn af stærð 2.2.
Reykjanesskagi
Tæplega 90 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni. Sá stærsti mældist 29. ágúst kl. 17:51 hann reyndist vera 3,1 að stærð um 4 km norðan við Grindavík (norðvestan í Þorbirni). Skjálftinn fannst vel í byggð og komu tvær tilkynningar frá Grindavík og ein úr Hafnarfirði. Annar minni skjálfti varð skömmu áður með skammt frá staðsetningu um 2.2 að stærð. Flestir skjálftanna mældust í tveimur smáhrinum 4. september, um 50 þeirra mældust við suðurenda Kleifarvatns í hrinu sem hófst rétt eftir miðnætti, síðar þann fjórða hófst hrina í Bláfjöllum milli kl. 21 og 23 þar sem mældust um 15 smáskjálftar í Bláfjöllum, sá stærsti um 1.5 að stærð. Sex skjálftar mældust við Reykjanestána í vikunni. Einn skjálfti úti á Reykjaneshrygg um 25km frá landi. Svo var einhver bakgrunnsvirkni við Vigdísarvelli og umhverfis Geitafell.
Norðurland
5 skjálftar mældust á Kröflusvæðinu þar sem sá stærsti mældist af stærð 1.4. En um 100 skjálftar voru staðsettir úti fyrir norðurlandi, sá stærsti mældist 1. september um kl. 17:30 norðnorðaustan við Grímsey um 2.4 að stærð en alls 40 skjálftar mældust þar við og þrír af þeim voru um 2 að stærð. 10 skjálftar mældust á Eyjafjarðarálnum um 20 úti fyrir Skjálfanda og tæplega 30 skjálftar í Öxarfirði. 1 skjálfti var staðsettur á Kolbeinseyjarhrygg um 2.2 að stærð.
Hálendið
Rúmlega 100 skjálftar mældust í Vatnajökli. 30. ágúst kl. 13:33 kom skjálfti í Bárðarbungu af stærð 3,8 með upptök við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. Annar skjálfti kom svo um kl. 13:50, af stærð 2,8 og svo smáhviða af skjálftum þar. Önnur hviða hófst um 16:50, stærsti M3,4 við norðurbrúnina. Alls mældust um 60 skjálftar við Bárðarbungu í vikunni. Um 25 skjálftar voru í ganginum og þar af sjö á djúpa svæðinu þar sem gangurinn beygir til norðurs. Af þeim voru allir nema einn minni en 1 að stærð en sá stærsti mældist 1.1. Sunnan við Bárðarbungu og um 8km austan við Hamarslón voru staðsettir 4 skjálftar og sá stærsti var rúmlega 2.3 að stærð. Í Grímsvötnum voru 4 skjálftar yfir einum að stærð en sá stærsti var rúmlega 2.2 að stærð þann 4. sept. kl. 09:53. Suðvestan við Hábungu voru staðsettir 3 skjálftar ~1 að stærð. Suðvestan við Tungnafellsjökul mældist skjálfti um 1 að stærð og annar 1.1 skammt vestan við Köldukvíslarjökul.
Í suðvestanverðum Langjökli var svo einn skjálfti rúmlega 1.24 að stærð. En sunnan Langjökuls voru tveir skjálftar sitthvorumeginn við Hlöðuvallarveg. Annar í sunnanverðum Högnhöfða tæplega 0.6 að stærð og hinn var minni við Eystra Mófell. Í Hofsjökli mældust tveir skjálftar annar <1 en hinn af stærð 1.4 í miðjum vestanverðum jöklinum. Norðan Hofsjökuls mældist annar skjálfti tæplega 2 að stærð við Vestari Jökulsá skammt austan við Skiptabakka.
Tæplega 20 skjálftar voru staðsettir við Öskju sá stærsti mældist um 1.8 að stærð en hinir voru allir minni en 1 að stærð. Um 70 smáskjálftar mældust við Herðubreið í vikunni 50 þeirra voru um 4km norðnorðvestan við Herðubreið þar sem 8 þeirra mældust stærri en einn að stærð og sá stærsti mældist rúmlega 1.7.
Mýrdalsjökull
Jarðskjálftahrina byrjaði í Kötlu 29. ágúst og mældust tveir skjálftar af stærð ~4,5 í norðurhluta Kötluöskjunnar. Þessir skjálftar eru þeir stærstu sem mælst hafa í Kötlu frá árinu 1977. Skjálftahrinan byrjaði milli kl. 00:30 og 06:00 þar sem flestir skjálftar mældust milli kl 00:40 og 01:50. Stóru skjálftarnir mældiust með tæplega þrjátíu sekúndna millibili kl. 01:47. Þeim fylgdu rúmlega 50 eftirskjálftar þar til kl 15:12, en þá kom skjálfti af stærðinni 3,3 og eftir hann lauk hrinunni og skjálftavirknin á svæðinu minnkaði á ný. Enginn órói mældist samfara þessum skjálftum. Rafleiðni í Múlakvísl hefur lækkað frá um 200 microS/cm niður í um 150 microS/cm. Gasmælingar við upptök Múlakvíslar sýna sömuleiðis að jarðhitagas hefur minnkað í vikunni og mælist nú óverulegt.
Jarðvakt